Í hverri viku munu sérfræðingar Körfunnar spá fyrir um hverja umferð í Dominos deildunum. Sérfræðingarnir verða fyrrum körfuboltamenn, þjálfarar, áhugamenn eða einhver allt annar.

Tíunda umferð Dominos deildar kvenna fer af stað í kvöld með þremur leikjum þar sem m.a. botnliðin mætast.

Spámaður vikunnar er Margrét Ósk Einarsdóttir leikmaður Fjölnis í 1. deild kvenna.

________________________________________________________________________

Haukar-Breiðablik

Bæði lið eru í fallbarráttu. Haukar með 2 sigra og Blikar með 1 sigur. Þetta verður hörkuleikur og bæði lið munu leggja allt í þennan leik. Haukar unnu síðasta leik með 10 stigum í Smáranum.

Blikarnir unnu sinn fyrsta leik í 9. umferð og eru komnar á bragðið með að klára sína leiki. Haukarnir töpuðu á móti sterku liði Vals í sömu umferð. Þær mæta dýrvitlausar til leiks. Sanja Orazovic nýr leikmaður Blika hefur komið sterk inn og verður mikilvæg í þessum leik. Hörkuleikur sem getur dottið báðum megin.

Breiðablik vinnur með 5 stigum

 

Skallagrímur-Keflavík

Lið Keflavíkur er í 1. sæti deildarinnar á meðan Skallagrímur er í 6. sæti. Keflavík valtaði yfir Snæfell í 9. umferð og Skallagrímur tapaði á móti Breiðablik eftir að hafa verið yfir með 18 stigum í hálfleik. Ari, þjálfari Skallagríms hætti með liðið í vikunni og ef Skallagrímur á að eiga séns í Keflavík þurfa þær að spila hörku vörn í 40 mínútur. Brittanny Dinkins mun halda áfram að vera framúrskarandi og vörn Keflavíkur verður Skallagrím erfið.

Keflavík vinnur sannfærandi með 20 stigum

KR-Valur

Alvöru Reykjavíkurslagur. KR vann síðasta slag á Hlíðarenda með 10 stigum. Bæði lið hafa verið að finna taktinn í deildinni. KR sigraði Stjörnuna frekar sannfærandi í 9. umferð og Valur sigraði Hauka. Helena Sverrisdóttir er nýr leikmaður Vals og verður gaman að sjá þær Guggu saman í liði í vetur. Orla O’Reilly og Kiana Johnson hafa verið frábærar hjá KR. Hörkuleikur verður í DHL-höllinni frá fyrstu mínutu.

Valur vinnur með 8 stigum

Snæfell-Stjarnan

Bæði lið fengu skell í 9. umferð. Það er ekkert grín að mæta í Hólminn og þurfa Stjörnustúlkur að mæta til leiks frá fyrstu mínútu. Stjarnan saknaði Ragnheiðar Benónísdóttur í síðasta leik þar sem hún var frá vegna höfuðmeiðsla. Vonandi verður hún komin aftur á völlinn sem fyrst. Danielle Rodriguez er búin að vera allt í öllu en hún þarf fleiri með sér. Stemningin verður frábær í Hólminum þar sem systurnar þrjár verða fremstar í flokki. (Gunnhildur, Berglind og Kristen Gunnarsdætur)

Snæfell vinnur með 15 stigum

Spámenn tímabilsins: 

  1. umferð – Anna María Sveinsdóttir (1 réttur)

3. umferð – Elín Sóley Hrafnkelsdóttir (1 réttur)

5. umferð – Signý Hermannsdóttir (4. réttir)

7. umferð – Helga Einarsdóttir (3 réttir)