Njarðvíkurstúlkur eru með tvo sigra og tvö töp í deildinni. Gestirnir, Stólastúlkur eru með einn sigur og tvö töp. Bæði liðin hafa unnið ÍR og tapað fyrir Grindavík. Það stefndi því í hörku leik milli þessara tveggja ungu liða.

Bæði liðin léku með sorgarbönd í dag þar sem tveit leikmenn Tindastóls misstu nýlega móður sína. Þótt liðin takist á inn á vellinum þá erum við öll hluti af körfuboltafjölskyldunni.

Það voru gestirnir sem byrjuðu betur en Njarðvíkurstúlkur voru fljótar að koma sér inn í leikinn og taka forustu. Staðan eftir fyrsta leikhluta 24 – 21. 7 heimastúlkur komnar á blað en aðeins 3 úr liði gestanna. Heimastúlkur byrjuðu 2. leikhluta betur og komust 9 stigum yfir mest. Staðan í hálfleik 43 – 36.

Ljónynjurnar komu með bullandi blóðbragð í munninum inn í seinni hálfleik og komust í 17 stiga forustu eftir frábæran 10 – 0 kafla. Staðan eftir 3. leikhluta 68 – 54. Gestirnir gerðu atlögu að Njarðvíkurstúlkum í 4. leikhluta, en heimastúlkur gerðu vel í því að halda þeim frá sér og unnu að lokum flottan sigur 88 – 70.

Byrjunarlið
Njarðvík: Júlía Scheving Steindórsdóttir, Vilborg Jónsdóttir, Jóhanna Lilja Pálsdóttir, Eva María Lúðvíksdóttir, og Ása Böðvarsdóttir-Taylor
Tindastóll: Tessandra Williams, Rakel Rós Ágústsdóttir, Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir, Marín Lind Ágústsdóttir og Kristín Eva Ólafsdóttir

Þáttaskil
Kraftur heimamanna í 3. leikhluta þar sem þær hristu Stólana af sér og náðu góðri forustu inn í 4. leikhluta skóp sigurinn.

Tölfræðin lýgur ekki
Njarðvíkingar tóku mun fleiri fráköst en gestirnir. Þar á meðal mörg sóknarfráköst. Þessi ótal mörgu sóknarfráköst gáfu heimastúlkum endurtekin tækifæri til að klára sóknirnar með körfu. Það verður fróðlegt að sjá þegar búið er að vinna tölfræði úr leiknum hversu mörg þau eru í raun.

Hetjan
Lið Njarðvíkur einkennist af mikilli liðsheild. Það koma margri við sögu. En þær stöllur Vilborg Jónsdóttir, 22 stig, Jóhanna Lilja Pálsdóttir, 20 stig og Eva María Lúðvíksdóttir, 18 stig áttu alveg frábæran leik. Tessandra Willams átti stórgóðan leik og setti niður 34 stig.

Kjarninn
Bæði lið spiluðu á köflum frábæran körfubolta. Frákastabarátta heimastúlkna gerði þó gæfumuninn. Þær gerðu hvað eftir annað út um sókn gestanna með því að rífa niður varnarfráköst og bjuggu til ný tækifæri í sinni sókn með því að næla í sóknarfráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, viðtöl / Þormóður Logi

Myndir / Jón Björn

 

Viðtöl