Keflavík tók á móti Snæfell í 9. umferð Dominos deildar kvenna í kvöld. Það eina sem skildi liðin að í töflunni fyrir þennan leik var fyrsta viðureign liðanna í haust þar sem Snæfell fór með 12 stiga sigur og sat því eitt liða á toppnum með 14 stig. Keflvíkingar sem fyrr segir 2 stigum frá toppsætinu með 12 stig ásamt KR í 2.-3. sæti deildarinnar. Keflavík hafði verið á 6 leikja sigurgöngu síðan leikurinn í Stykkishólmi fór fram og því mörg teikn á lofti fyrir hörkuleik í íþróttahúsinu við Sunnubraut á síðasta sunnudegi fyrir aðventu.

 

Hvítklæddir Keflvíkingar hrifsuðu frumkvæðið á fyrstu mínútum leiksins þar sem Brittany Dinkins fór mikinn. Katla Garðarsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir voru einnig fyrirferðamiklar á þessum spretti heimakvenna þar sem staðan varð 16-4 áður en Baldur Þorleifsson hafði séð nóg. Gestirnir náðu aðeins betri tökum á verkefninu eftir leikhlé, sóttu grimmt að körfunni og fiskuðu margar villur á Keflvíkinga á meðan þær söxuðu á muninn hægt og bítandi. Snæfell fékk góð tækifæri til þess að minnka muninn enn frekar en bogalistin brást gestunum og fengu þær það í bakið er Keflvíkingar hertu tökin varnarlega og fylgdu auðveld stig í kjölfarið á hinum enda vallarins. Staðan eftir 1. leikhluta 28-13.

 

Keflvíkingar héldu uppteknum hætti í 2. leikhuta þar sem vörnin var feykisterk og áttu gestirnir í vandræðum með að brjóta hana á bak aftur. Takturinn í sóknarleik gestanna var lítill og skotnýtingin skelfileg (34%). Kristen McCarthy og Berglind Gunnarsdóttir drógu vagninn með 21 af 30 stigum liðsins í hálfleiknum. Keflavík náði mest 17 stiga forystu, 38-21 þar sem Brittany Dinkins sýndi mátt sinn og megin. Hún endaði hálfleikinn með 22 stig auk þess að spila frábæra vörn ásamt liðsfélögum sínum. Snæfell lagaði þó stöðuna með áhlaupi og er liðin gengu til búningsherbergja var munurinn 12 stig, 42-30.

 

Oft getur vont versnað sagði einhver og væri undirritaður ekki hissa ef sá aðili hafi verið á meðal áhorfenda Snæfellsmegin í stúkunni í kvöld. Keflvíkingar byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og fljótt varð munurinn 20 stig og náði mest 24 stigum í leikhlutanum. Snæfellskonur reyndu að skipta yfir í svæðisvörn til að rugla sóknarleik heimakvenna en boltinn flæddi vel og opnu skotin voru sem hlaðborð í augum Keflvíkinga sem leiddu með 22 stigum er þriðja leikhluta lauk, 63-41.

 

Ljóst var að Snæfells beið erfið brekka í lokafjórðungnum og aðeins nánast fullkomnar 10 leikmínútur gætu snúið taflinu við. Það er skemmst frá því að segja að sú varð ekki raunin í kvöld. Gestunum var hreinlega snúið við í hurðinni á leið sinni að körfu Keflavíkur á löngum köflum í kvöld á meðan Keflvíkingar léku agaðan sóknarleik gegn svæðisvörn gestanna. Heimakonur hleyptu leiknum ekki upp, tóku sér langar sóknir og vel útfærð hraðaupphlaup þegar færi gafst. Það fór svo að lokum að Keflavík hafði 27 stiga sigur, 82-55.

 

Kjarninn

Keflvíkingar mættu miklu ákveðnari í kvöld og eftir að hafa fundið blóðbragðið í byrjun leiks var ekkert óðagot að finna á leik heimakvenna. Vörnin var ekki frábær allan leikinn en þegar lekinn var að verða vandamál var einfaldlega skrúfað fyrir aftur. Þroskuð frammistaða hjá liðinu og þrátt fyrir að Brittany Dinkins sé potturinn, pannan og kokkurinn í sóknarleiknum var það framlag heildarinnar sem sökkti mjög sterku Snæfellsliði í kvöld.

Að því sögðu er þetta leikur sem Snæfell vill helst gleyma sem fyrst. Liðið virkaði illa stemmt og hlutirnir virtust oft gerðir með hálfum hug. Skotnýtingin (37% úr 2ja og 8% úr þriggja) var ekki til útflutnings og þá var svæðisvörnin ekki nægilega hreyfanleg til að gera sóknartilburði Keflvíkinga óþægilega. Vantaði áþreifanlega frumkvæði á réttum augnablikum þegar liðið var inni í leiknum snemma og of margar sóknir enduðu með slæmu skotvali.

 

Bestu leikmenn vallarins

Brittany Dinkins. 35 stig, 12 fráköst, 6 stoðsendingar, 5 stolnir og 5 varðir boltar.

skotnýting: 57% í 2ja og 56% í 3ja.

Fór á kostum á báðum endum vallarins. Besti leikmaður deildarinnar um þessar mundir. Ómögulegt að segja hvar Keflavík væri í töflunni ef hennar hefði ekki notið við í vetur.

 

Salbjörg Sævarsdóttir (12 stig, 8 fráköst) og Bryndís Guðmundsdóttir (11 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar) áttu líka fínan leik. Reynslumestu leikmenn liðsins voru mikilvægir í kvöld, stigu vel upp og skiluðu góðu framlagi fyrir sitt lið.

 

Hjá liði Snæfells var Kristen McCarthy atkvæðamest með 21 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar. Hún hefur þó oft spilað mun betur en í kvöld og þurfti hún 25 skot til að ná í þessi 21 stig.

 

Berglind Gunnarsdóttir (9 stig og 4 fráköst) og Katarina Matijevic (8 stig og 14 fráköst) komu henni næstar.

 

Hvað þýða úrslitin?

Keflavík tyllir sér með þessum 27 stiga sigri upp á topp deildarinnar með 14 stig en deila toppsætinu með bæði Snæfelli og KR sem sigraði Stjörnuna sannfærandi í kvöld. Keflvíkingar eiga nú innbyrðisúrslit á bæði Snæfell og KR auk þess sem að sigurgangan heldur áfram og telur nú 7 leiki.

 

Í næstu umferð heimsækja Keflvíkingar Fjósið í Borgarnesi á miðvikudagskvöldið en Snæfellskonur etja kappi við Stjörnuna í Stykkishólmi 2. desember.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

 

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Myndir, viðtal / SBS