Félagaskiptaglugginn á Íslandsmótinu lokar á morgun og enn á eftir að ganga frá nokkrum lausum endum. Gera má ráð fyrir að stórir bitar eigi eftir að lenda fyrir lokun annað kvöld.

Helena Sverrisdóttir mun semja við lið í Dominos deild kvenna og þá er Elvar Friðriksson á leið til Njarðvíkur að öllu óbreyttu. Spurningamerkið er Kristófer Acox og í hvaða félagi hann verður þegar glugganum lokar.

Líkt og greint var frá á MBL í síðustu viku vill Kristófer losna frá Denain en Elvar var látinn fara.

Franskir fjölmiðlar sem Karfan hefur rætt við síðustu daga segja frá því að franska félagið hafi hinsvegar verið ósátt við ummæli þeirra félaga í umræddu viðtali við MBL.is. Þeir sögðu viðtalið vera skandal og neituðu að skrifa undir félagaskipt fyrir Kristófer.

Það er því óljóst hvað verður en samkvæmt heimildum er reynt að greiða úr flækjunni. Það er hinsvegar einungis rétt rúmur sólarhringur til stefnu til að fá félagaskiptin í gegn.

Kristófer sem glímir við smávegileg meiðsli þessa stundina yrði gríðarlegur liðsstyrkur í Dominos deildina en hann var valinn besti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð. Hann vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu en ljóst er að það er spennandi gluggadagur framundan.