Enn bætist í leikmannahóp KR-inga í Dominos deild karla, en líkt og kunnugt er hafa Vesturbæingar nýlega bætt við sig þeim Kristófer Acox og Finni Atla Magnússyni. Nú hefur enn einn uppalinn KR-ingurinn bæst í hópinn, en Ingi Þór Steinþórsson þjálfari KR staðfesti í samtali við Körfuna að Helgi Már Magnússon myndi leika með liðinu frá áramótum.

Helgi er íslenskum körfuboltaáhugamönnum auðvitað að góðu kunnur, enda margfaldur Íslandsmeistari með KR og þaulreyndur landsliðsmaður. Helgi lék síðast með KR í úrslitaeinvíginu gegn Tindastóli síðastliðið vor, en Helgi skilaði 6.5 stigum að meðaltali í leik í sex leikjum í úrslitakeppninni.

KR-ingar sitja í fjórða sæti Domino’s deildarinnar eftir 8 umferðir.