Njarðvíkingar tóku á móti Vestra í 2. deild drengjaflokks í morgun.  Bæði liðin eru ósigruð, Njarðvík með tvo sigra og Vestri tvo.

Bæði lið gerðu eitthvað af mistökum í fyrsta leikhluta. Veigar Páll var hreint frábær en hann skoraði fyrstu 10 stig Njarðvíkinga. Hjá gestunum voru það þeir bræður Hugi og Hilmir sem röðuðu niður stigum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 19 – 24.

Gestirnir byrjuðu annan leikhluta með miklum látum. Þeir komust mest 12 stigum yfir. Heimamenn tóku þá leikhlé og komu grimmir til baka og náðu að minna muninn niður í 2 stig. Mikael Máni og Eyþór stigu upp fyrir heimamenn í öðrum leikhluta og voru skæðir fyrir utan þriggjastiga línuna. Hallgrímssynir voru áfram drjúgir fyrir gestina en Krzysztof Duda og Egill Fjölnisson áttu fína innkomu. Staðan í hálfleik 43 – 47.

Þriðji leikhluti brösuglega. Bæði lið gerðu mikið af mistökum og klikkuðu á opnum skotum. Eftir um 3 stigalausar mínútur opnuðust flóðgáttirnar loksins, Veigar Páll sem hafði látið lítið fyrir sér fara í öðrum leikhluta setti niður fyrstu 8 stig Njarðvíkinga. Staðan eftir þriðja leikhluta 58 – 58.

Vestri byrjaði fjórða leikhluta bestur en Njarðvíkingar voru fljótir að koma sér aftur inn í leikinn. Leikmenn beggja liða sýndu mikla baráttu og liðin skiptust á því að leiða fram á síðustu mínútu. Vestri var yfir en Njarðvík náði að jafna leikinn þegar þrjár sekúndur voru eftir. Vestri tók leikhlé en náðu ekki að klára leikinn. Framlenging því málið. Staðan eftir fjórða leikhluta 75 – 75.

Njarðvíkingar byrjuðu framlenginguna betur en gestirnir komu til baka og síðustu sekúndur framlengingar voru geysilega spennandi. Það voru að lokum heimamenn sem uppskáru sigur 92 – 90.

Byrjunarlið:

Njarðvík: Almar Ágústsson, Veigar Páll Alexandersson, Óskar Gíslason, Brynjar Berg Tumason og Mikael Máni Möller

Vestri: Hugi Hallgrímsson, Hilmir Hallgrímsson, Blessed Parilla, Egill Fjölnisson og Friðrik Heiðar Vignisson

Hetjan:

Bestur hjá heimamönnum var Veigar Páll Alexandersson og Mikael Máni Möller var einnig góður. Hjá gestunum voru það Hugi og Hilmir Hallgrímssynir sem voru ferskastir ásamt Agli Fjölnissyni.

Kjarninn:

Jafn og skemmtilegur leikur. Mikil barátta hjá báðum liðum og alveg hörku spennandi fjórði leikhluti og framlenging. Bæði liðin hefðu getað farið heim með sigurinn. Það eru nokkrir leikmenn í báðum liðum sem gaman verður að fylgjast með á komandi árum.

Viðtöl:

Veigar Páll Alexandersson

Hilmir Hallgrímsson