Gunnar Ólafs hefur verið flottur í liði Keflavík það sem af er og var stigahæstur sinna manna í kvöld með 20 stig. Þetta er gæðapiltur og var ekkert að gera mikið úr sínum þætti:

Frábær leikur hjá þér! Kannski með þeim bestu sem þú hefur sýnt?

Já þakka þér fyrir, þetta var alveg fínn leikur í dag. Ég var ágætlega heitur, ég ákvað bara að skjóta opnu skotunum og ég var heppinn að þau fóru ofaní!

Keflavík lítur rosalega vel út þessa dagana. Kannski ágætt að fá einn svona tiltölulega þægilegan og öruggan sigur eins og í kvöld eftir harkið það sem af er, svona fyrir utan Grindavíkurleikinn?

Jújú, þetta var bara fínn leikur hjá okkur. Við erum samt enn að púsla okkur saman. Það er ótrúlega gaman að spila með þessum strákum, við erum að komast betur og betur á sömu blaðsíðu finnst mér. Við þurfum samt sem áður að halda áfram að vinna í okkur og erum nokkuð frá því að verða jafngóðir og við getum verið.

Ef fram heldur sem horfir þá gætuð þið hreinlega orðið alveg svakalegir sýnist mér!

Það er hárrétt! Ég hef fulla trú á því.

Mig langar að spyrja þig aðeins út í smiðinn (Mantas) – hann sýndi lipra takta í dag. Hvernig gaur er þetta, hvernig týpa er hann?

Já, hann Mantas! Þetta er bara yndislegur gaur! Ég alveg dýrka hann. Hann er alger snillingur og hann er leynivopnið okkar.

Ég sé fyrir mér að hann gæti jafnvel orðið alveg svakalegur þegar hann verður kominn í topp stand?

Hann er að skafa af sér kílóin maður! Ég kalla hann alltaf Slim-Jim núna, hann er búinn að skafa af sér svo mikið. Hann heldur bara áfram að bæta sig sem er frábært fyrir okkur og kemur með þessar sterku innkomur og gefur okkur smá spark í rassinn þegar við þurfum þess. Alveg frábær!

Meira má lesa um leikinn hér.

Viðtal: Kári Viðarsson