KR sigraði Tindastól í kvöld í 5. umferð Dominos deildar karla, 93-86. Eftir leikin eru liðin bæði jöfn Stjörnunni, Keflavík og Njarðvík í efsta sæti deildarinnar með fjóra sigurleiki og eitt tap.

Gangur leiks

Leikur kvöldsins var jafn og spennandi framan af. Eftir fyrsta leikhluta leiddu heimamenn með tveimur stigum, 22-20. Við það forskot bættu heimamenn svo undir lok annars leikhlutans, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 48-40 KR í vil.

Í upphafi seinni hálfleiksins fékk besti leikmaður Tindastóls, Urald King, sína fjórðu villu og þurfti því að sitja bróðurpart hálfleiksins. Stólarnir reyndu hvað þeir gátu til þess að höggva á forskot heimamanna, en KR svaraði þeim áhlaupum í hvert einasta skipti. Eftir þrjá leikhluta var KR ennþá 8 stigum yfir, 71-63. Tindastóll komst í nokkur skipti nálægt því að jafna leikinn undir lokin, en allt kom fyrir ekki. KR sigraði leikinn að lokum með 7 stigum, 93-86.

Tölfræðin lýgur ekki

KR skaut 92% af gjafalínunni í kvöld á móti aðeins 68% nýtingu Tindastóls.

Hetjan

Jón Arnór Stefánsson var besti leikmaður vallarins í kvöld. Skoraði 29 stig, tók 7 fráköst og gaf 2 stoðsendingar á tæpum 33 mínútum spiluðum.

Kjarninn

Mikil vigt var í þessum sigri KR-inga í kvöld. Fyrir leikinn var Tindastóll eina taplausa lið deildarinnar, sem sigruðu annað topplið, Njarðvík, mjög örugglega í síðustu umferð. Leikur KR í kvöld var ekki óaðfinnanlegur, en hann leit samt ansi vel út. Þrátt fyrir að fá 86 stig á sig, þá hélt vörn þeirra í hvert einasta skipti sem það skipti máli. Einnig var á tíðum aðdáunarvert hversu vel boltinn gekk í sókninni þeirra. Stærsta atriðið kannski að vera, að er virðist, búnir að endurheimta Jón Arnór Stefánsson aftur úr meiðslum. Með hann heilan og þetta upplegg/leik geta þeir unnið hvaða lið sem er í deildinni og eiga eftir að gera raunverulega atlögu að þeim sjötta.

 

Tölfræði

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

Viðtöl: