ÍR tók á móti KR í 1. deild drengjaflokks í kvöld. Bæði lið höfðu fram að þessu aðeins unnið tvo leiki en ÍR hafði tapað 5 leikjum fyrir viðureign kvöldsins á meðan að KR hafði bara tapað þremur. ÍR hafði tapað fyrir Fjölni fyrir tæpri viku síðan en KR, sem höfðu lent í tveimur frestuðum leikjum í nóvember, hafði unnið Breiðablik fyrir nærri því heilum mánuði síðan, í lok október!

Byrjunarlið

ÍR: Hafliði Jökull Jóhannesson, Aron Orri Hilmarsson, Benóný Svanur Sigurðsson, Arnar Máni Einarsson, Sebastian Óli Guðmundsson.

KR: Sveinn Búi Birgisson, Alexander Knudsen, Gunnar Steinþórsson, Þorvaldur Árnason, Tristan Gregerz.

Gangur leiksins

Fyrsti leikhluti fór heldur rólega af stað í fyrstu, en KR fékk nokkrar auðveldar körfur eftir að ÍR fór að tapa allt of mikið af boltum. Heimamenn gátu þó klórað í bakkann enda gátu KR-ingar ekki klárað færin sem að þeir fengu og töpuðu líka nokkrum boltum. Eftir rúmar 7 mínútur var staðan 4-12 og fjöldi tapaðra bolta u.þ.b. 10-4 svo Daði Berg Grétarsson, þjálfari ÍR, sá sig tilneyddan að til að taka sitt fyrsta leikhlé. ÍR hélt áfram að tapa boltum en gátu sem betur fer skorað til að stemma aðeins af. Staðan eftir fyrsta var því 13-18, KR í vil.

Annar leikhlutinn var aðeins betri hjá heimamönnum, en þeir svart- og hvítklæddu voru meira að spila saman sem lið. ÍR-ingar voru mikið í einstaklingsframtakinu en gegn þéttri vörn KR þá gekk ekki betur en svo að gestirnir juku jafnt og þétt við forystuna sína. KR fékk auðveld skot eftir góða boltahreyfingu á meðan að ÍR þurftu að vinna meira fyrir sínu. Þjálfari KR sá sig þó tilneyddan að taka leikhlé í stöðunni 31-36 því að öll auðveldu skot KR leiddu sjaldan til karfa, enda var skotnýting KR í vaskinum í fyrri hálfleik. Gestirnir gátu þó haldið ÍR frá og leiddu með 6 í hálfleik, 35-41.

Í þriðja leikhluta komu ÍR-ingar bandbrjálaðir inn á og tóku 9-3 áhlaup á fyrstu  tveimur  mínútunum til að jafna leikinn. Heimamenn voru að spila með meiri eldmóð en áður og KR-ingar fóru hreinlega til baka gegn aggressívari vörn Breiðhyltinga. KR voru fljótir að taka leikhlé eftir enn einn tapaðan bolta í stöðunni 49-47. Hafliði Jökull var mjög mikilvægur fyrir ÍR, en hann virtist getað skorað að vild á þessum tímapunkti í leiknum. KR fór að tapa helling af boltum á meðan ÍR gat ekki hitt úr skotunum sínum. Veigar Már Helgason, sem átti frábæran skotleik fyrir aftan þriggja stiga línuna í kvöld, setti góðan þrist á lokasekúndum fjórðungsins til að koma KR aftur upp í 4 stiga forystu, 57-61.

Í lokaleikhlutanum náðu bæði lið einhvern veginn að keyra upp ákafann og úr varð mjög spennandi fjórðungur þar sem ÍR-ingar voru sífellt að hóta að jafna leikinn. KR gat þó haldið þeim frá sér með nokkrum vel völdum sóknarfráköstum og körfum og lokastaðan varð því 71-79, KR í vil.

Hetjan

Hetja leiksins var að þessu sinni Veigar Már Helgason, sem kom af bekknum hjá KR. Veigar Már spilaði fantagóða vörn í leiknum, stal þó nokkrum boltum og skoraði 11 stig, þ.a. þrjá stóra þrista þegar á þurfti að halda. Stigaskor KR-inga skiptist nokkuð jafnt, enda var stigahæsti maður þeirra, Þorvaldur Árnason, aðeins með 15 stig. Hjá ÍR var Hafliði Jökull Jóhannesson atkvæðamestur með 34 stig.

Kjarninn

Bæði lið spiluðu mjög óagaðan bolta á köflum en KR-ingar náðu að setja nægilega mörg skot til að tryggja sér sigurinn. ÍR-ingar voru mest allan leikinn nægilega góðir til að geta unnið, en veik byrjun (13-18 í fyrsta leikhluta) og veikur endir (14-18 í fjórða leikhluta) varð þeim að falli. Baráttusigur hjá KR sem eru þá 3-3 eftir 6 leiki meðan að ÍR eru aðeins lakari með 2-6 efti 8 leiki.

Viðtöl eftir leik

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson