Valsmenn tóku í gærkvöldi á móti Stjörnunni á heimavelli sínum, Origo-höllinni. Fyrir leik hafði hlutskipti liðanna verið ólíkt, en Garðbæingar höfðu unnið 4 leiki og tapað einum á meðan Valsarar sátu á botni deildarinnar án sigurs.

Leikurinn var afskaplega jafn framan af, og voru liðin jöfn í hálfleik, 49-49. Í upphafi þriðja leikhluta höfðu gestirnir úr Garðabæ sex stiga forystu, en sú forysta lifði skammt. Valsmenn settu einfaldlega í gírinn og luku leikhlutanum með 22-6 áhlaupi, þar sem heimamenn með Kendall Anthony í fararbroddi virtust skora að vild. Eftir þetta áhlaup virtust Stjörnumenn slegnir út af leginu og þó svo að gestirnir hafi klórað í bakkann undir lok leiks var sigur Valsmanna aldrei í hættu í lokafjórðungnum, lokastaðan 97:92.

Af hverju vann Valur?

Valsarar verðskulduðu sannarlega fyrsta sigurinn, en sóknarleikur liðsins var frábær á tímabili, auk þess sem nánast hvert skot heimamanna virtist rata rétta leið. Þannig hittu Valsmenn t.d. úr 52% þriggja stiga tilrauna sinna, og alls 61% skota sinna. Þá réðu Stjörnumenn einfaldlega ekkert við Kendall Anthony, erlendan leikmann Vals, en Anthony virtist geta skorað að vild.

Bestur

Það hallar á engan þegar fullyrt er að Kendall Anthony hafi verið maður leiksins í gærkvöldi. Anthony stjórnaði sóknarleik Vals frábærlega og lauk leik með 34 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar, en þar af hitti hann úr öllum 4 þriggja stiga skotum sínum og alls 72% allra skota sinna. Frábær leikmaður sem Valsarar hafa fengið til sín.

Framhaldið

Stjörnumenn taka á móti Tindastóli föstudaginn 16. nóvember, þar sem þeir munu reyna að koma sér aftur á sigurbraut. Valsarar munu hins vegar reyna að fylgja eftir sínum fyrsta sigri miðvikudaginn 14. nóvember, þegar þeir mæta í Hertz hellinn í Seljaskóla og takast á við ÍR-inga.