Fyrir leikinn

Valur og Breiðablik mættust í Origo-höllinni að Hlíðarenda í gærkvöldi í fjórðu umferð úrvalsdeildar kvenna. Fyrir leikinn var ljóst að Guðbjörg Sverrisdóttir yrði ekki með Valsstúlkum vegna veikinda. Valur hafði unnið einn leik af sínum fyrstu þremur á meðan að Blikar voru án sigurs.

Gangur leiksins

Leikurinn byrjaði ekki fallega og framan af var lítið um gæði í spili beggja liða, en liðin skiptu milli sín 14 töpuðum boltum í fyrsta leikhluta, 7 stykki hvort. Blikar voru þó kræfari framan af og leiddu eftir fyrstu 10 mínúturnar, 14-22, undir forystu funheitrar Sóllilju Bjarnadóttur sem jafnaði stigaskor Valsstúlkna ein og óstudd í fyrsta leikhluta.

Dæmið snérist við í öðrum leikhlutanum og Valur fór að spila talsvert betri vörn og fækka mistökum hjá sér. Valsstúlkur skoruðu 23 stig í öðrum leikhlutanum á meðan að þær takmörkuðu Blikastelpur í 23% skotnýtingu (3/13) og aðeins 12 stig. Staðan í hálfleik var því 37-34, heimaliðinu í vil.

Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi en Valur náði að breikka bilið í byrjun fjórða leikhluta sem dempaði áhlaup Blika undir lok leiksins. Þrátt fyrir að Kelly Faris, erlendur leikmaður Breiðabliks, hafi sett liðið á bakið á sér og næstum því jafnað leikinn þá fór svo að lokum að Valur vann með fjórum stigum, 71-67.

Lykillinn

Liðsheildin hjá Val og vörn þeirra átti lykilframmistöðuna í gær. Það sést best á því að í lokaleikhlutanum gat aðeins erlendur leikmaður Blika skorað og sókn þeirra grænklæddu var mjög stöm. Hallveig Jónsdóttir var stigahæst fyrir Val með 20 stig og þó að hún hitti illa fyrir innan þriggja stiga línuna (2/13, 15.3% nýting) þá raðaði hún 5 þristum niður í 8 tilraunum (62.5% 3ja stiga nýting). Í liði Breiðabliks var Kelly Faris framlagshæst allra á vellinum með 26 stig og 18 fráköst. Hún lauk leik með 28 framlagspunkta.

Kjarninn

Valur byrjaði leikinn illa en enduðu hann vel á meðan að Blikar byrjuðu vel en enduðu illa. Það sést hve naumur leikurinn var ekki aðeins á stigaskorinu heldur á því hve svipuð liðin voru í flestum tölfræðiþáttum. Leikurinn hefði getað farið á hinn veginn ef að 1-2 skot hefðu fallið öðruvísi en Valsstúlkur áttu skilið að vinna þennan leik.

Samantektin

Úrslit þessa leiks þurfa ekki endilega að koma á óvart en það er áhugavert að sjá hvað Breiðablik virðist alltaf vera í naumum leikjum. Í fyrstu fjórum leikjum þeirra hafa þær þrisvar sinnum verið innan við 5 stig frá því að vinna í venjulegum leiktíma. Valur rétt náði að vinna þennan leik og það er augljóst að bæði lið þurfa að spila betur ef að þau vilja vinna leiki í þessari þrælöflugu og spennandi úrvalsdeild kvenna.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Torfi Magnússon)

Viðtöl eftir leik

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Torfi Magnússon