þessi spá er hluti af spá körfunnar fyrir tímabilið 2018-2019

Brooklyn Nets

Heimavöllur: Barclays Center
Þjálfari: Kenny Atkinson

Helstu komur: Ed Davis, Kenneth Faried, Shabazz Napier.
Helstu Brottfarir: Quincy Acy, Nick Stauskas, Jeremy Lin.

 

Það hafa verið mögur ár hjá Brooklyn Nets undanfarið. Liðið hefur ekki átt valréttina sína í mörg ár eftir skiptin sem færðu þeim Paul Pierce og Kevin Garnett og hefur leiðin uppávið reynst bæði löng og strong. Það er allt til staðar þegar að kemur að umgjörð liðsins en það hefur vantað upp á leikmannahópinn. Það er ennþá staðan og býst undirritaður fastlega við því að framundan sé meira af því sama og undanfarin ár.

Styrkleikar liðsins eru þeir að liðið hefur á ágætis skyttum að skipa. Þeir spila hraðan bolta og skjóta mikið af þriggja stiga skotum. Það er alveg möguleiki á því að Dinwiddie og Russell spili svolítið saman í vetur eftir mikil meiðsli á síðasta ári og það hlýtur að hjálpa. Jarrett Allen kom vel inn í þetta í fyrra og Caris LeVert og Rondae Hollis-Jefferson eiga vonandi eftir að taka skref framávið í vetur.

Veikleikar liðsins Eru margir. Varnarlega eru þeir einfaldlega ekki góðir, eru ágætir í að halda liðum fyrir utan þriggja stiga línuna en það slæma er að þau skot eru oftar en ekki opin. Sóknarlega eru þeir villtir, þá sérstaklega Russell sem er oft á tíðum eins og hann sé í eigin heimi. Þeir munu eiga í sömu vandræðum og önnur ung lið þegar að kemur að því að vinna jafna leiki. Það er enginn leikmaður í liðinu nægilega afgerandi sóknarlega til þess að breyta leikjum.

 

Fylgstu með: Jarrett Allen. Það er gaman að fylgjast með Allen. Stór strákur og mikill háloftafugl.

Stuðningsmaðurinn segir:
Verandi Liverpool maður er ég vanur eyðimerkurgöngu sem stuðningsmaður en loksins virðist vera að birta til hjá Nets. Það voru litlar en jákvæðar breytingar gerðar í sumar, í takt við þau hænuskref framfara sem Atkinson og Marks hafa predikað síðan þeir tóku við. Þeir bættu við sig í framlínunni, héldu í kjarnann og losuðu sig við Lin = gerðu engar rósir en standa betur að vígi fyrir draftið en nokkurntíman síðan Billy King var og hét.

Síðasta tímabil var framför frá tímabilinu þar áður og það er ekkert sem bendir til annars en að það sama verði upp á teningnum. Þeir gætu alveg komið á óvart í vetur en það er háð mjög mörgum og stórum EF-um. Ef Russell/Crabbe fara að gera eitthvað. Ef Dinwiddie heldur áfram að koma á óvart. Ef Hollis-Jefferson/Jarrett Allen taka næsta skref. Ef þeir fara að klára jafna leiki. Ef þeir fara að spila betri vörn og taka fráköst. Eftir ölduganginn síðastliðinn áratug uni ég þeim alveg að staðna smá, en ég reikna þó með einhverri (amk örlítilli) bætingu. Þeir eru í það minnsta að fara að mæta gíraðir í alla leiki vetrarins og skjóta þristum án þess að skammast sín.

Best-case scenario: 10 leikja bæting Worst-case scenario: Svipað margir leikir og í fyrra og panic-trade í des.

-Hermann Hermannsson

 

Spáin: 28-54. 12. Sæti í Austurdeildinni

 

Áður birt:
15. Atlanta Hawks
14. Orlando Magic
13. New York Knicks