Undankeppni Meistaradeildar evrópu lauk í vikunni þegar átta lið kepptust um síðustu fjögur sætin í riðlakeppninni. Haukur Helgi Pálsson og félagar í Nanterre 92 voru í eldlínunni gegn Karhu.

Einn íslendingur tekur þátt í Meistaradeildinni í vetur en það er Haukur Helgi Pálsson sem spilar með Nanterre 92. Franska liðið mætti finnsku meisturunum Karhu þar sem Íslandsvinirnir Flenard Whitfield og Kelvin Lewis léku á síðustu leiktíð.

Líkt og við greindum frá fyrr í vikunni vann Nanterre sannfærandi sigur í fyrri leiknum og því ljóst að liðið væri með níu fingur inní riðlakeppninni.

Það sama var algjörlega uppá teningnum í seinni leiknum. Nanterre sýndi styrk sinn og gjörsamlega valtaði yfir Karhu 91-58.

Haukur Helgi var í byrjunarliðinu í leiknum og lék rúmlega 22 mínútur. Hann endaði með 9 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum.

Nanterre 92 er þar með komið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og leikur í B-riðli ásamt PAOK, Tenerife, Fribourg, Opava, Holon, Bonn og Venezia.