Breiðablik sigraði Skallagrím fyrr í kvöld í fyrsta leik 5. umferðar Dominos deildar karla. Leikurinn sá fyrsti sem Blikar sigra í vetur, en þeir höfðu fram að leik kvöldsins tapað fyrir Haukum, ÍR, Stjörnunni og Grindavík.

Hérna er meira um leikinn

Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms, var tekinn tali eftir leik:

Þið byrjið hörmulega í þessum leik og var eins og draugur sem elti ykkur allan leikinn.

Jájá, við lentum í holu. Þeir mættu bara klárir til leiks en ekki við og þeir voru bara betri í dag. Bara meiri gæði og meiri ákefð og meira allt heldur en hjá okkur. Þeir eiga bara sigurinn skilinn, það er bara þannig.

Maður á mann vörnin var að ganga alveg hrikalega illa hjá ykkur…

…jájá…og það var eiginlega alveg sama hvað við gerðum. 2-3 svæðið var ekki gott heldur, þeir hittu bara ekki úr skotunum.

Já, svæðisvörnin leit skár út kannski bara út af því?

Já, útaf því að þeir hittu ekki. En í fyrri hálfleik þá drævuðu þeir bara fram hjá fyrsta manni og ein aukasending og karfa. Það skipti engu máli hver það var.

Einmitt, svo voru menn jafnvel að gera sig seka um að hlaupa ekki til baka og þeir fengu einföld sniðskot.

Jájájá…trekk í trekk! Það klikkaði eiginlega allt sem gat klikkað hjá okkur í dag.

Einmitt, þetta var ekki góður leikur hjá Sköllum og næstum því ótrúlegt að tapa bara með 10.

Nei, sannarlega ekki góður leikur – og við töpum bara með 10 því þeir hittu illa í seinni hálfleik, það er eina ástæðan.

Mér finnst að liðið vanti leikstjórnenda, er það rugl í mér?

Tja..neinei ekkert endilega. Það væri rosa gott að fá einn gæðaleikmann í viðbót, ég neita því ekki, hvort sem það er leikstjórnandi eða stór maður eða hvað – það myndi hjálpa okkur mikið. En við erum hérna 12 í búning og við notum það sem við eigum, við erum bara stoltir af því og reynum að bæta okkur.

Jájá, þetta er mjög borgnesískt lið, það er skemmtilegt.

Það er mjög skemmtilegt! En þá verða þeir að sýna dug og kraft og spila eins og Egill Skallagrímsson og félagar gerðu. Þeir gera það stundum en það gerðist ekki í dag. En það er enginn heimsendir, við þjöppum okkur saman og gerum okkur klára í næsta leik.

Það er klárlega karakter og hjarta í liðinu – það sást vel í sigrinum gegn ÍR. Nú hef ég ekki séð neitt viðtal við þig eftir þann leik en það var sannarlega frábær karaktersigur?

Já það var það, frábær sigur. Við sýndum svo sem karakter í dag, við komum til baka en náðum þessu ekki alveg.

2 sigrar í 5 leikjum sem af er, er það ekki bara allt í lagi?

Jújú svo sem, maður vill auðvitað meira en þetta er bara svona.

 

Viðtal / Kári Viðarsson