Einhverjir ráku upp stór augu þegar nafn miðherjans knáa Finns Atla Magnússonar var skráð fyrir félagaskiptum í KR nú á dögunum. Finnur, sem er uppalinn KR-ingur, hefur síðan árið 2015 leikið með Haukum í Hafnarfirði, þar sem hann m.a. lék stóran þátt í deildarmeistaratitil félagsins á síðasta tímabili.

Finnur, sem búsettur er í Ungverjalandi með konu sinni Helenu Sverrisdóttur, segir félagaskiptin þó ekki vera þess eðlis að hann sé að fara að leika með aðalliðinu.

Í spjalli við Körfuna sagði Finnur:

“Ég var að sækja um félagsskipti i KR en það er nú reyndar svo ég geti spilað með með heimsþekktu liði KR-B þegar ég kem heim i landsleikjapásunni. Langar að ná einum leik með Gumma bróðir”

Aðspurður sagði þjálfari KR, Ingi Þór Steinþórsson, að nú væri Finnur orðinn löglegur, þó svo að hann hafi frétt það fyrir aðeins fáeinum dögum að hann hefði skipt úr Haukum.

Ljóst er að fari svo að Finnur spili eitthvað með aðalliði KR í vetur, þá er um mikinn liðsstyrk að ræða fyrir Íslandsmeistarana. Á síðasta tímabili skilaði Finnur 9 stigum, 7 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í 30 leikjum með Haukum.