Norska körfuknattleikssambandið hefur komið á fót hópi einstaklinga sem hafa það hlutverk að horfa á leiki í Noregi og taka út dómara. Veita þeim endurgjöf og miðla upplýsingum um þá til dómaranefndar. Einn þeirra sem er í nýjum hóp Norðmanna er Kristinn Óskarsson.

 

Á heimasíðu norskra dómara segir að þetta hlutverk hafi verið í höndum dómaranefndar hingað til og mest á herðum tveggja manna en nú hefur verið búinn til hópur 8 einstaklinga sem hafa þetta hlutverk. Allir í hópnum eru núverandi eða fyrrverandi dómarar með áratuga reynslu og margir hverjir sem FIBA dómarar og eftirlitsmenn.

 

Það er ánægjulegt fyrir okkar Íslendinga að sjá að Kristinn Óskarsson er í þessum hóp en hann hefur verið fulltrúi FIBA í Noregi í tengslum við þróun dómara hjá minni þjóðum. Kristinn mun aðallega horfa á leiki af myndbandi og gefa sínar skýrslur en hann mun einnig mæta á úrslitakeppni yngri flokka og taka út dómara þar og veita endurgjöf. Spennandi verkefni hjá Norðmönnum og væri gaman að sjá slíkt verkefni á Íslandi.