Borgnesingar halda áfram að styrkja lið sitt fyrir komandi átök í Dominos deild karla. Liðið samdi við króatíska leikstjórnandann Ivan Mikulic í gær um að leika með liðinu á næstu leiktíð, þetta var staðfest seint í gærkvöldi.

Ivan Mikulic er 27 ára leikstjórnandi sem lék í efstu deild í Rúmeníu á síðustu leiktíð, þar sem hann var með 10,7 stig og 4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þar áður lék hann í tékknesku deildinn auk þess sem hann hefur leikið í Georgíu, Slóvakíu, Bosníu og Króatíu.

Leikmaðurinn er 191 cm á hæð en hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Króatíu og var í stóru hlutverki hjá U20 landsliðinu. Mikulic er væntanlegur til landsins á næstu dögum og verður því klár fyrir tímabilið en Skallagrímur mætir KR í DHL-höllinni í fyrstu umferð.

Skallagrímur er að safna liði fyrir komandi leiktíð í Dominos deild karla en liðið er nýliði eftir að hafa unnið 1. deild karla á síðustu leiktíð. Björgvin Hafþór og Bergþór Ægir Ríkharðssynir hafa samið við liðið auk þess sem allir lykilleikmenn frá síðustu leiktíð fyrir utan Darrell Flake verða áfram. Króatinn Matej Buovac og Aundre Jackson hafa einnig samið við lið Skallagríms