Forkeppni Eurobasket 2021 hófst hjá Íslenska landsliðinu í dag með leik gegn Portúgal þar ytra. Ásamt Íslandi og Portúgal er Belgía með í riðlinum.

Leikur dagsins var hnífjafn nánast frá upphafi til enda. Ísland fékk tækifæri til að jafna eða ná sigri á lokaandartökunum en boltinn vildi ekki ofaní. Tap því staðreynd í dag, 80-77.

Gangur leiksins:

Byrjunarlið Íslands. Hörður Axel, Martin, Elvar, Kristófer og Tryggvi

Íslenska liðið fór vel af stað og leiddi nánast allan fyrri hálfleikinn. Portúgal setti einungis 14 stig á Ísland í fyrsta leikhluta og vörn þeirra bláklæddu mjög sterk. Því miður náði Ísland ekki að halda uppteknum hætti í öðrum leikhluta og sigldi Portúgal framúr þegar leið á. Staðan í hálfleik var 34-33 fyrir heimamönnum.

Tryggvi Snær Hlinason var með níu af fyrstu tólf stigum Íslands í leiknum og var öflugur. Þriggja stiga nýting Íslands var hinsvegar ekki góð í fyrri hálfleik.

Þriðji leikhluti var arfaslakur hjá Íslandi. Liðinu skorti einbeitingu á ögurstundum og tapaði of mörgum boltum sem Portúgalir nýttu sér til að ná í auðveldar körfur á hinum endanum. Heimamenn voru komnir með ellefu stiga forystu fyrir lokafjórðunginn.

Ísland ætlaði greinilega ekki að leggja árar í bát heldur byrjuðu fjórða leikhluta á 9-0 áhlaupi. Þá var komið að Kára Jónsson show. Hann setti átta stig í röð til að koma Íslandi yfir í fyrsta sinn í seinni hálfleik.

Portúgalar gerði vel í lokin að setja þær körfur sem til þurfti en Íslandi gekk illa að stoppa þá á úrslitastundum. Síðustu sóknir Íslands þar sem liðið gat unnið eða jafnað gengu ekki upp og því um svekkjandi tap að ræða 80-77.

Tölfræðin lýgur ekki:

Íslenska liðið tapaði átján boltum í leiknum og þar af átta bara í þriðja leikhluta þar sem Portúgal náði góðri forystu. Heimamenn skora þá 17 stig bara eftir tapaða bolta gegn 10 hjá Íslandi en það var einfaldlega of dýrt í svo jöfnum leik.

Besti leikmaðurinn:

Þetta er einfaldlega liðið hans Martins Hermannssonar, hann endaði með 20 stig, 8 stoðsendingar og 4 fráköst. Þá hitti hann mjög vel en Martin fékk ekki mikið pláss sóknarlega og komust Portúgalir upp með að lemja mikið á honum án þess að dæmt væri ár það.

Það er hinsvegar vert að minnast á innkomu Kára Jónssonar sem setti 11 stig bara í fjórða leikhluta og öll voru þau á mikilvægum augnablikum.

Einkunnir leikmanna úr leiknum eru væntanlegar á karfan.is síðar í kvöld.

Kjarninn – Hvað þýða úrslitin?

Efstu liðin í hverjum riðli í þessari forkeppni komast beint í undankeppni Eurobasket 2021 en hin fara í næstu umferð forkeppninnar. Belgía vann Portúgal í fyrsta leik riðilsins með einu stigi svo von er á æsispennandi keppni í þessum riðli. Það sást í dag að Íslenska liðið er ekki síðra en það Portúgalska.

Frammistaða Íslands var of kaflaskipt í dag. Fyrsti og fjórði leikhluti voru góðir en liðinu virtist skorta einbeitingu í öðrum leikhlutum, þá sérstaklega í þeim þriðja. Liðið fékk góð tækifæri í lokin til að klára leikinn en fór illa að ráði sínu. Því miður féll ekkert með Íslenska liðinu í lokin, hvort sem það voru skotin eða dómar.

Næsti leikur fer fram 29. nóvember næstkomandi þegar Belgía mætir í Laugardalshöllina.

Tölfræði leiksins

Myndasafn