Íslandsmeistarar Hauka eru á fullu að safna liði fyrir komandi átök í Dominos deild kvenna. Liðið kemur ansi breytt til baka úr sumarfríi en tveir leikmenn sömdu við liðið á dögunum, þær Bríet Lilja Sigurðardóttir og Eva Margrét Kristjánsdóttir.

Bríet Lilja kemur frá Skallagrím þar sem hún lék á síðustu leiktíð en hún er uppalin hjá Tindastól. Á síðustu leiktíð var hún með 5,2 stig og 4,5 fráköst að meðaltali í leik fyrir Borgnesinga sem komust í undanúrslit íslandsmótsins þar sem liði féll einmitt úr leik gegn Haukum. Bríet var hluti af U20 landsliði Íslands sem lék á EM í sumar.

Einnig hefur Eva Margrét Kristjánsdóttir samið við liðið en hún tekur skónna af hillunni eftir tveggja ára hlé. Eva sem lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki á Ísafirði hefur einnig leikið með liði Snæfells og Hauka. Hún var Íslandsmeistari með liði Snæfells 2014 og hefur leikið stór hlutverk í yngri landsliðum Íslands.

Miklar breytingar hafa orðið á liði Hauka í sumar. Helst er að nefna að Helena Sverrisdóttir hefur samið við lið í Ungverjalandi en auk hennar hafa Dýrfinna Arnardóttir, Ragnheiður Björk Einarsdóttir og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir yfirgefið liðið. Liðið hefur þó samið við Akvile Baronenaite og Lele Hardy um að leika með liðinu.