Körfuknattleiksdeild Þórs frá Akureyri tilkynnti í gær að Sindri Davíðsson verði áfram í herbúðum liðsins á næstu leiktíð. Sindri sem er uppalinn á Akureyri og hefur leikið þar allan sinn feril fyrir utan eitt tímabil hjá Snæfell.

 

Á síðustu leiktíð var hann stór hlekkur í liði Þórsara í Dominos deild karla. Þar skoraði hann 6,5 stig að meðaltali í leik, tók 1,8 fráköst og 2 stoðsendingar. Auk þess er Sindri gríðarlega sterkur varnarmaður og mun vera mikilvægur fyrir Akureyringa í 1. deild karla.

 

,,Það er virkilega ánægjulegt að Sindri hafi ákveðið að taka slaginn með okkur í vetur. Sindri hefur verið stór hluti af Þórsliðinu síðastliðin ár og hans meginhlutverk í vetur verður að dekka bestu menn andstæðinganna og gera þeim lífið leitt. Sindri kemur með ákveðna reynslu inn í ungan hóp og það er ávallt gott að vera með leikmann sem hefur meira gaman af því að spila vörn heldur en sókn innanborðs” sagði Lárus Jónsson þjálfari liðsins á heimasíðu Þórs um samninginn við Sindra.
 

Á heimasíðu Þórs var einnig greint frá því að Jón Ingi Baldvinsson mun taka við starfi  yfirþjálfara yngri flokka Þórs auk þess að þjálfa yngri flokka. Jón Ingi þekkir vel til hjá Þór enda uppalinn hjá félaginu og fór upp í gegnum yngri flokka starfið alla leið upp í meistaraflokk og lék þar með liðinu í neðri deildum. Undanfarin ár hefur Jón Ingi getið sér gott orð sem þjálfari hjá Reykdælum í Borgarfirði og náð eftirtektarverðum árangri.


Fyrr í sumar höfðu Ingvi Rafn, Baldur Örn Júlíus Orri, Bjarni Rúnar og Kolbeinn Fannar framlengt samninga sína við Þór auk þess sem búið var að semja við Larry Thomas og Damir Miljic. Liðið hefur því náð að halda sama kjarna frá síðustu leiktíð og eru til alls líklegir í 1. deild karla á komandi leiktíð