Nýliðar Breiðabliks halda áfram að safna liði fyrir komandi leiktíð í Dominos deild karla. Líkt og Karfan.is greindi frá í gær ákvað Þorsteinn Finnbogason að semja við liðið. Blikar tilkynntu komu hans svo formlega í gær og einnig að Þorgeir Freyr Gíslason hefði samið við liðið en hann kemur frá Hamri

 

Í tilkynningu Breiðabliks segir: "Þorgeir sem er fæddur árið 1995 er 188 seintímetrar á hæð leikur í stöðu bakvarðar. Þorgeir er þúsundþjalasmiður á velli en hann er leikmaður sem getur brotið sér leið að körfunni, skotið boltanum fyrir utan regnbogann og á auðvelt með að halda mönnum fyrir framan sig í vörn. Þorgeir skilaði 12.2 stigum, 5.6 fráköstum, 2 stoðsendingum á 28 á mínútum að meðatali í leik fyrir Hamar á síðasta keppnistímabili í 1.deild." 

 

Í sömu tilkynningu segir Pétur Ingvarsson þjálfari liðsins um komu þeirra félaga.„Ég fagna komu þeirra beggja, þetta eru vel spilandi leikmenn sem eru ekki að stíga sín fyrstu skref í þessari íþrótt. Tilkoma þeirra mun styrkja hópinn og gefa okkur aukna vídd bæði 
varnar- og sóknarlega“ 

 

Blikar hafa verið á fullu að semja við leikmenn fyrir komandi leiktíð. Fyrr í sumar hafði liðið samið við Arnór Hermannsson, Bjarni Geir Gunnarsson, Hilmar Pétursson og Snorra Hrafnkelsson um að leika í grænu sem leika sem nýliðar í Dominos deild karla á komandi leiktíð. Þorgeir þekkir vel til þjálfara liðsins, Péturs Ingvarssonar en hann þjálfaði Hamar á síðustu leiktíð.