Snæfell heldur áfram að styrkja lið sitt fyrir komandi leiktíð í Dominos deild kvenna en Katarina Matijevic hefur skrifað undir samning við félagið. Þetta kemur fram á facebook síðu umboðsmanns hennar, Sigurðar Hjörleifssonar. 

 

Katarina er frá Króatíu, fædd árið 1995 og er kraftmikill framherji eða miðherji. Hún lék með yngri landsliðum Króatíu og hefur spilað í efstu deild á Króatíu og Austurríki. Katarina var með 6.0 stig og 5,3 fráköst að meðaltali í leik á síðustu leiktíð í Króatíu. 

 

Nokkrar breytingar eru á liði Snæfells en stærstar þær að Ingi Þór Steinþórsson verður ekki áfram við stjórnvölin í Stykkishólmi. Baldur Þorleifsson sem hefur verið Inga til aðstoðar síðustu ár mun taka við liðinu. Kristen McCarthy verður áfram með liðinu auk þess sem flestir lykilmenn liðsins hafa endurnýjað samninga sína.