Ísland mætir Finnlandi í lokaleik í riðlum fyrir undankeppni HM. Þessi sömu lið mættust í riðlakeppni Eurobasket í september síðastliðnum í þessari sömu höll í háspennuleik. 

 

Allir 11.000 miðarnir sem fóru í sölu seldust upp á nokkrum vikum og er því uppselt á leikinn. Íslensku U16 og U18 landsliðin ásamt þjálfurum verða í stúkunni og styðja við sitt lið en við þekkjum vel stemmninguna sem getur myndast í þessari frábæru höll. 

 

Það er ekki nema von að eftirvæntingin fyrir þessum leik sé mikil enda mikið í húfi. Þetta er algjör úrslitaleikur fyrir Ísland, Ísland verður að vinna Finnland til að eiga möguleika á að komast í milliriðil. Finnland þarf sigur eða vona að Tékkland vinni Búlgaríu til að komast áfram. Tékkland er eina liðið í F-riðli sem er komið áfram. 

 

Finnar eru með fullskipað lið. Lauri Markkanen þekkjum við vel en hann leikur með Chicago Bulls og fór ansi illa með okkur á Eurobasket. Petteri Koponen verður með Finnlandi í kvöld en hann missti af leiknum gegn Tékkum um helgina. Svo er Sasu Salin leikmaður Unicaja með einnig en hann setti ömurlegt miðjuskot í leiknum gegn Íslandi á Eurobasket. 

 

Íslenska liðið lenti í Helsinki um helgina og er í góðu yfirlæti. Liðið æfði í keppnishöllinni í gær og virðast allir leikmenn liðsins vera klárir í slaginn fyrir þennan mikilvæga leik fyrir Ísland. 

 

Leikurinn fer fram kl 15:45 að Íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á RÚV 2. Karfan.is er á staðnum og mun gera leiknum góð skil beint frá Helsinki.