Snæfell heldur áfram að styrkja lið sitt fyrir komandi átök í Dominos deild kvenna en Heiða Hlín Björnsdóttir hefur samið við liðið. Þetta var tilkynnt á heimasíðu liðsins í dag. 

 

Heiða Hlín kemur frá Þór Akureyri þar sem hún hefur leikið síðustu ár og verið í stóru hlutverki. Á síðustu leiktíð var hún algjör burðarás í liði Þórs sem lék í 1. deild kvenna. Þar var hún með 17 stig, 7,1 fráköst og 1,8 stoðsendingar. 

 

Þessi 21. árs leikmaður er mikill styrkur fyrir Snæfell en hún tekur nú slaginn í efstu deild í Stykkishólmi. Nokkrar breytingar eru á liði Snæfells en stærstar þær að Ingi Þór Steinþórsson verður ekki áfram við stjórnvölin í Stykkishólmi.

 

Baldur Þorleifsson sem hefur verið Inga til aðstoðar síðustu ár mun taka við liðinu. Kristen McCarthy verður áfram með liðinu auk þess sem flestir lykilmenn liðsins hafa endurnýjað samninga sína. Þá samdi liðið við króatann Katarina Matijevic um að leika með liðinu.