Skallagrímur hefur náð samning við Bandarískan leikmann fyrir komandi leiktíð en Aundre Jackson mun leika með Borgnesingum á komandi leiktíð. Aundre Jackson kemur beint úr háskóla í Bandaríkjunum þar sem hann hefur leikið síðustu tvö ár. 

 

Aundre Jackson er 22. ára fjölhæfur framherji sem leikið getur nokkrar stöður á vellinum. Hann er 1,96 m á hæð og þykir góður varnarmaður. Aundre lék með Loyola-Chicago háskólanum sem var spútniklið síðasta tímabils í háskólaboltanum. Liðið kom öllum að óvörum og komst í undanúrslit Mars fársins þar sem liðið féll úr leik gegn Michigan háskólanum. 

 

Jackson var með 11 stig og 3,2 fráköst að meðaltali á síðustu leiktíð en leiktíðina 2016-2017 var hann valinn sjötti maður sinnar deildar. Varð hann þar með fyrsti leikmaður Loyola-Chicago háskólans til að hlotnast sá heiður. 

 

„Vilji hans til að vinna var klikkaður og hann gafst aldrei upp“ segir Colton Otts fyrrum samherji Aundre hjá Kennedale framhaldsskólanum í frétt um árangur Jacksons hjá Loyola. 

 

Skallagrímur er að safna liði fyrir komandi leiktíð í Dominos deild karla en liðið er nýliði eftir að hafa unnið 1. deild karla á síðustu leiktíð. Björgvin Hafþór og Bergþór Ægir Ríkharðssynir hafa samið við liðið auk þess sem allir lykilleikmenn frá síðustu leiktíð fyrir utan Darrell Flake verða áfram. Króatinn Matej Buovac hefur einnig samið við lið Skallagríms en frekari frétta er að vænta úr Borgarnesi af leikmannahópnum.