Hinn sextán ára gamli Fannar Elí Hafþórsson hefur samið við Wesley Christian framhaldsskólann í Bandaríkjum um að leika með liðinu á næstu leiktíð. Þetta staðfestir hann í samtali við Karfan.is fyrr í dag en Fannar hefur leikið með Fjölni síðustu ár við góðan orðstýr. 

 

Fannar segist hafa stefnt á þetta síðustu tvö ár en í sumar tók hann þátt í Elite Euro Talent Camp í Kaliforníu þar sem þjálfarar framhaldsskóla í Bandaríkjum fylgjast með leikmönnum með möguleika á að semja við þá. „Ég þurfti meðal annars að senda inn myndband af sjálfum mér sem ég setti sjálfur saman“ sagði Fannar um búðirnar og bætti við: 

 

„Í framhaldi af þvi þá var ég í sambandi við umsjónarmann búðanna þá Jason Benadretti og Tomaso Sasdelli sem komu mér síðan í samband við David Meddings sem er þjálfari í Wesley Christian School“. Í framhaldi af því hafi hann fengið boð um að koma í skólann sem er staðsettur í Allen, Kentucky. Fannar stefnir því á því að taka eitt ár þar sem hann mun leika körfubolta auk þess að setjast á skólabekk, fyrst þurfi hinsvegar að ganga frá tilskyldum leyfum. 

 

Það sem vekur sérstaka athygli við ævintýri Fannars í Ameríku er að hann hefur sjálfur komið sér á framfæri og verið ákveðinn í að komast til Bandaríkjanna. Hann komst sjálfur í samband við umsjónarmenn búðanna og sótti um það. Fannar sagði í samtali við Karfan.is að foreldrar hans hafi aðeins verið honum til handar en þar fyrir utan hafi hann sjálfur gert nánast allt. 

 

David Meddings þjálfari Wesley skólans í Kentucky segir á Facebook-síðu sinni frá komu Fannars til skólans. Þar segir hann að Fannar sé stjórnandi á gólfinu auk þess sem hann sé góður skotmaður með alþjóðlega reynslu. 

 

 

Fannar Elí hefur verið lykilmaður í 10. flokki drengja hjá Fjölni síðasta tímabili en liðið varð bikarmeistari á nýliðnu tímabili en rétt missti af úrslitakeppni Íslandsmótsins. Í úrslitaleik bikarsins gegn Stjörnunni var Fannar hetja Fjölnis þegar hann setti ævintýralega þriggja stiga körfu fyrir sigri.