Ekkert verður úr því að Dagur Kár snúi heim í Garðabæinn og leiki með uppeldisfélaginu þetta tímabilið. Dagur hefur verið í viðræðum við Austurrískt félag síðustu vikurnar og staðfesti í samtali við Karfan.is í morgun að samningar hefðu náðst. 

 

Dagur Kár Jónsson hefur nú samið við Austurríska úrvalsdeildarfélagið Raiffeisen Flyers Wels um að leika með liðinu á komandi leiktíð. Liðið endaði í fimmta sæti Austurrísku efstu deildarinnar á síðustu leiktíð auk þess að komast í undanúrslit bikarkeppninnar. 

 

Hann var frábær fyrir Grindavík síðasta tímabil og endaði með 16,6 stig og 6,8 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var valinn besti leikmaður Grindavíkur á síðustu leiktíð en hann hefur leikið þar síðustu tvö ár. 

 

Það er mikill skellur fyrir Stjörnuna að missa Dag en liðið leit ansi vel út fyrir komandi leiktíð. Fyrr í vor tók Arnar Guðjónsson við þjálfun liðsins af Hrafni Kristjánssyni. Þá er Ægir Þór Steinarsson kominn til liðs við Stjörnuna og lykilmenn á borð við Hlyn Bæringsson og Tómas Þórð samið á ný við liðið.