Alþjóðakörfuknattleikssambandið FIBA tilkynnti í dag að 13 leikmenn og 2 þjálfarar Filippseyja og Ástralíu hefðu verið dæmdir í bann fyrir háttsemi sína í leik liðanna í byrjun mánaðarins. Þá voru dómarar leiksins einnig sendir í leyfi frá störfum sínum á þessu hærra sviði og munu þeir dæma ómerkilegri leiki næsta árið eða svo.

 

Hér má sjá hvað gerðist:

 

10 leikmenn Filippseyja voru sendir í bann. Japeth Aguilar og Matthew Wright í einn leik hvor, Terence Romeo, Jayson Castro William, Andray Blatche og Jeth Rosario í þrjá leiki hver, Roger Pogoy, Carl Cruz and Jio Jalalon í fimm leiki hver og Calvin Abueva í sex leiki. Aðstoðarþjálfarinn Joseph Uichico var svo dæmdur í þriggja leikja bann og aðalþjálfarinn Vincent ‘Chot’ Reyes í eins leiks bann, en hann var einnig sektaður um rúma miljón krónur íslenskar fyrir háttsemi sína.

 

Þá var körfuknattleikssamband Filippseyja dæmt til að greiða 26 miljónir íslenskar í sekt og dæmt til að leika næsta heimaleik sinn fyrir luktum dyrum.

 

Þrír leikmenn Ástralíu fengu bann. Chris Goulding einn leik, Thon Maker þrjá leiki og Daniel Kickert fimm leiki í bann. Þá var ástralska sambandið dæmt til að greiða tæpar 11 miljónir í sekt fyrir atvikið.

 

Samkvæmt fréttatilkynningu verða þeir fjármunir sem að þjálfari og samböndin greiða fyrir atvikið notaðir til þess að koma af stað verkefninu körfubolti til góða (e. Basketball for Good)