Lið Selfoss er í óðaönn að undirbúa komandi tímabil í 1. deild karla. Á dögunum krækti liðið í Björn Ásgeir Ásgeirsson frá Vestra auk þess sem þrír erlendir leikmenn hafa samið við liðið. Í dag var svo tilkynnt að Skagfirðingarnir Hlynur Freyr Einarsson og Friðrik Hrafn Jóhannsson myndi ganga til liðs við sunnanliðið. 

 

Í tilkynningu á heimasíðu Selfoss segir um þá félaga: „Hlynur er tvítugur, sterkur framherji með hæfileika bakvarðar. Hann er ógnandi af þriggjastiga færi, með góðan leikskilning og öflugur í fráköstum. Hlynur var valinn besti leikmaður Tindastóls í unglingaflokki á liðnu tímabili.

 

Friðrik er ári eldri, snöggur leikstjórnandi/skotbakvörður, góður varnarmaður á bolta og með ólgandi baráttukrafti sínum er hann gaurinn sem öll lið þurfa til að halda mönnum á tánum.“

 

Þeir elta þar með Chris Caird sem tók við liði Selfoss í sumar en hefur verið á Sauðárkróki, bæði sem leikmaður og þjálfari síðustu tvö ár. Það er því nokkuð ljóst að Selfoss ætlar sér stóra hluti í 1. deild karla á komandi leiktíð.