Íslenska landsliðið leikur fyrri leik sinn í þriðja glugga heimsmeistaramótsins gegn heimamönnum í Búlgaríu á morgun. Seinni leikur liðsins er svo eftir helgina gegn Finnlandi í Helsinki.

 

Leikur Búlgaríu og Íslands einkar mikilvægur báðum liðum, en það lið sem sigrar verður að teljast ansi líklegt til þess að ná að tryggja sér þriðja sæti riðilsins og þar með áframhaldandi þátttöku í undankeppninni.

 

Fyrir leikinn léku Búlgarar tvo æfingaleiki gegn Túnis síðasta fimmtudag og föstudag. Var útsendari íslenska liðsins, aðstoðarþjálfarinn Baldur Þór Ragnarsson sendur út til þess að kryfja leik Búlgaríu.

 

Samkvæmt Baldri lenti hann í stökustu vandræðum á fyrri leiknum. Þar sem að öryggisverðir hallarinnar mættu þrír til hans þegar vel var liðið á leikinn og hótuðu að henda honum út ef hann hætti ekki að taka upp leikinn á síma sinn. Samkvæmt Baldri var honum ekki beint ógnað af öryggisvörðunum á annan hátt, en fór hann eftir fyrirmælum þeirra og náði því að klára leikinn. Enn frekar sagði Baldur frá því að það sem hefði nást á upptöku hefði liðið geta notað vel í undirbúningi sínum fyrir leik morgundagsins.

 

Seinni leikurinn, sem átti að vera opinn öllum degi seinna, var svo leikinn fyrir luktum dyrum, en spyrja má sig hvort það hafi verið til þess að vernda enn frekar leyndarmál Búlgaríu fyrir leikinn mikilvæga á morgun.

 

Ísland mætir Búlgaríu í Sófíu á morgun kl. 15:00 og mun leikurinn vera í beinni útsendingu á RÚV.

 

Mynd / Samsett