Ísland mætti Búlgaríu í undankeppni heimsmeistaramótsins í körfubolta. Í fyrsta sinn síðan undirritaður man eftir sér var Hlynur Bæringsson ekki í byrjunarliðinu, en sá átti samt eftir að láta til sín taka í leiknum. Byrjunarlið Íslands var svo skipað:

Hörður
Martin
Haukur
Kristófer
Tryggvi

 

Leikurinn var í járnum mestallan tímann, liðin skiptust á að hafa forystu en Búlgarir náðu að lokum að knýja fram spennusigur 88 – 86, Ísland fékk mögleika á að vinna leikinn en þriggja stiga skot Hauks Helga geigaði þegar að flautan gall.

 

 

Stigahæstu menn Íslands í leiknum voru Hlynur Bæringssson með 16 stig og 7 fráköst og þá settu Martin og Haukur 14 stig hvor. Hjá Búlgörum var Vezenkov atkvæðamestur með 19 stig og 7 fráköst.

 

 

Kynslóðaskipti?

Byrjunarlið Íslands í dag bar keim af því að kynslóðaskiptin eru mestmegnis gengin í gegn, Hlynur Bæringsson byrjaði á bekknum og Kristófer og Tryggvi mönnuðu miðjuna. Ungu leikmennirnir voru virkilega sterkir í dag, sértaklega í fyrri hálfleik. Það sást samt að menn eins og Hlynur eiga ennþá nóg eftir.

 

Kjarninn

Íslenska liðið spilaði prýðisvarnarleik allan leikinn en réðu illa við sterkustu vopn Búlgarana, þriggja stiga skotin og svo Vezenkov undir körfunni. Það var gaman að sjá karakterinn í liðinu þegar að þeir lentu 10 stigum undir og svöruðu með 15 stiga áhlaupi þar sem að fyrrnefndur Hlynur var að raða þristunum. Búlgarirnir voru þó sjáanlega öruggari þegar að pressan jókst í lok leiks, gáfu ekki frá sér auðvelda bolta og keyrðu sinn sóknarleik vel.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Það verður að segja að Búlgarirnir skutu boltanum alveg afskaplega vel, sérstaklega framan af og settu í heildina 15 þriggja stiga skot með frábærri 50% prósent nýtingu, í fyrri hálfleik settu þeir einfaldlega allt niður og settu 9 þrista. Ísland setti því miður einungis niður 7 þrista með um 30 prósent nýtingu. Virkilega erfitt að vinna upp slíkann mun.

 

Maður leiksins

Maður leiksins er títtnefndur Hlynur Bæringsson, hann dró vagninn í áhlaupinu í þriðja leikhluta, skaut boltanum virkilega vel og var að venju frábær varnarlega. Hlynur lauk leik með 16 stig (4/6 í þristum), 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá var Martin Hermannsson drjúgur, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði 10 stig.

 

Tölfræði leiksins

 

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Mynd Davíð Eldur