Undir 18 ára lið drengja tapaði fyrir Eistlandi með 76 stigi gegn 92. Liðið því með tvö töp eftir tvo fyrstu dagana á Norðurlandamótinu. Næst leika þeir gegn Svíþjóð á morgun.
Gangur leiksins:
Ísland fór agalega illa af stað og lenti illa undir strax í upphafi. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 12-26 og illa gekk á báðum endum vallarins. Munurinn var mestur tuttugu stig í öðrum leikhluta en leikurinn var langur enda mikið flautað. Staðan í hálfleik 31-49 fyrir Eistlandi.
Þrátt fyrir nokkrar tilraunir þá tókst Íslandi ekki að minnka muninn að neinu viti í seinni hálfleik. Eistar voru líkamlega sterkir og nýttu sér þann kost vel. Lokastaðan var 76-92 fyrir Eistlandi og U18 liðið því enn í leit af sigri á Norðurlandamótinu.
Tölfræðin lýgur ekki:
Eistland tók 25 sóknarfráköst og gjörsamlega rústuðu allri frákastabaráttu leiksins. Fyrir vikið tók liðið 16 fleiri skot í leiknum.
Hetjan:
Veigar Páll Alexandersson átti gríðarlega kraftmikla innkomu í leik dagsins. Hann barðist gríðarlega, henti sér á alla bolta og kom sér að körfunni. Auk þess endaði hann með 11 stig og 5 fráköst. Hilmar Henningsson var stigahæstur með 18 stig.