Njarðvíkur hefur samið við Gerald Robinson um að leika með liðinu á komandi tímabili í Domino´s-deild karla. Þetta var tilkynnt á heimasíðu liðsins fyrir stundu. 

 

Í tilkynningunni segir um leikmanninni: „Robinson er fæddur 1984 og er bæði bandarískur og hollenskur ríkisborgari. Hann er 202 cm kraftframherji sem getur einnig leyst miðherjastöðuna. Robinson hefur tvisvar áður leikið hér á landi. Hann lék með Haukum tímabilið 2010-2011 og var þá að skila 21 stigi og 13,7 fráköstum. Hann lék svo með Hetti í 1.deildinni eftir áramótin tímabilið 2013-2014.  Þar var hann með tæp 22 stig og tæp 10 fráköst í 14 leikjum.“

 

Undanfarin ár hefur hann leikið í Hollandi, Frakklandi og núna síðast á Englandi en þar spilaði hann með Surrey Scorchers og gerði þar 13,8 stig, tók 6,1 frákast og skaut rúmlega 52% í 2ja stiga skotum og 34% í 3ja stiga skotum.  Í sumar leikur hann svo í sumardeild í Bólivíu í Suður Ameríku áður en hann kemur til Íslands í haust.

 

Njarðvíkurliðið mætir nokkuð breytt til liðs í Dominos deildina á næstu leiktíð en Einar Árni Jóhannsson er tekinn við liðinu en Ólafur Helgi Jónsson og Jón Arnór Sverrisson eru komnir til liðs við Njarðvík. Robinson er þriðji erlendi leikmaðurinn sem liðið semur við en Mario Matasovic og Jeb Ivey hafa nú þegar skrifað undir samninga við liðið. Þá er ljóst að þeir Ragnar Nathanelsson, Oddur Rúnar Kristjánsson og VIlhjálmur Theodór Jónsson yfirgefa liðið.