Þjálfaranámskeið KKÍ 3.a fer fram um helgina í Ólafssal í Hafnarfirði. Það voru um 60 þjálfarar skráðir á námskeiðið en kennarar á því eru Ágúst Björgvinsson, Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, Sveinn Þorgeirsson, Friðrik Ingi Rúnarsson, Borce Ilievski, Ívar Ásgrímsson auk landsliðsleikmanna. Aðalfyrirlesari námskeiðisins var Bob McKillop núverandi þjálfari Davidson háskólans. 

 

McKillop flutti í gær fyrirlestur sinn um hugmyndarfræði sína í þjálfun en í dag var aðal fókusinn á sóknarenda leiksins. Á morgun mun hans síðasti fyrirlestur fara fram um liðsvörn. 

 

Bob McKillop er fæddur í New York sem lék með háskólum í Bandaríkjunum og var til skemmri tíma samningsbundinn Philadelphia 76ers án þess að leika með þeim. Hann hefur þjálfað Davidson háskólann frá árinu 1989 með góðum árangri. Hann hefur átta sinnum verið valinn þjálfari ársins í SoCon deildinni. 

 

Hann þjálfaði Stephen Curry á háskólaárum sínum en stjarna Golden State liðsins gerði garðinn frægan hjá liði Davidson. Í dag leikur Jón Axel Guðmundsson með Davidson og þekkir því vel til Bob McKillop. Á nýloknu tímabili komst liðið í Mars fárið í fyrsta sinn í þrjú ár. 

 

Leikmenn úr U20 landsliði kvenna voru McKillop til aðstoðar í dag. Samkvæmt Ágústi Björgvinssyni sem stjórnar þjálfaramenntun KKÍ er gríðarleg ánægja með komu Bob McKillop og höfðu aðrir þjálfarar á námskeiðinu það á orði að fyrirlestur hans hafi vakið mikla lukku. Þetta mun vera í fjórða sinn í röð sem erlendur fyrirlesari tekur þátt í námskeiði sem þessu. 

 

Viðtal við Bob McKillop er væntanlegt á Karfan.is. 

 

Myndir frá fyrirlestri morgunsins.