ÍR-ingurinn Sveinbjörn Claessen hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir farsælan 13 ára feril með liðinu. Morgunblaðið greinir frá. Sveinbjörn er aðeins 32 ára gamall, en hann sleit bæði krossbönd árin 2009 og 2011 og segir hann í samtali að hnémeiðslin séu farin að taka sinn toll.

 

Sveinbjörn er annar "gamli" ÍR-ingurinn sem leggur skóna á hilluna nú eftir þetta tímabil, en Ómar Örn Sævarsson (leikmaður Grindavíkur) er einnig ný hættur. Saman spiluðu Sveinbjörn og Ómar með bikarmeistaraliði ÍR árið 2007.

 

Sveinbjörn hættir eftir eitt besta tímabil sem lið hans hefur átt í langan tíma. Þar sem liðið hafnaði í 2. sæti í deildarkeppninni og var ekki langt frá því að tryggja sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins.

 

Ítarlegt viðtal er að finna við Sveinbjörn í Morgunblaði dagsins í dag. Karfan vill nota tækifærið og hrósa Sveinbirni fyrir frábæran feril og óska honum velfarnaðar í því sem að hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.