Mikið hefur verið spáð og spekúlerað um hvaða liði meistarar síðustu fimm ára í KR muni tefla fram á næsta tímabili. Eitthvað hefur verið talað um endurnýjun og þjálfari liðsins, Finnur Freyr Stefánsson, segir að ný saga muni hefjast næsta haust.

 

Þó hefur enn ekki mikið verið hoggið í leikmannahóp liðsins. Það eina sem er fyrir víst er að framherjinn Darri Hilmarsson mun ekki vera með liðinu áfram og aðstoðarþjálfari þeirra Skúli Ingibergur Þórarinsson ekki heldur.

 

Skúli hafði verið með liðinu í öllum titlunum fimm, en hann kom til KR eftir að hafa verið eitt tímabil sem aðstoðarþjálfari Hjalta Vilhjálmssonar hjá Fjölni. Það var árið 2013, en þá féll Fjölnir úr Dominos deildinni. Má því segja að Skúli hafi snúið blaðinu all hressilega við, farið úr því að vera með lið sem féll, beint í þá glæsilegustu sigurgöngu sem efsta deild karla hefur séð síðan að fyrirkomulag úrslitakeppni var tekið upp árið 1984.

 

Karfan heyrði í Skúla og spurði hann út í tímann hjá KR og nýtt upphaf í Hornafirði.

 

 

 

Fréttum að þú værir að yfirgefa KR, hvað kemur til?

 

"Ég fékk á dögunum starf sem félagsmálafulltrúi á Höfn í Hornafirði og flutti þangað aðeins nokkrum dögum eftir að við lyftum titlinum."

 

 

Nokkuð sigursæl ár sem þú varst með liðinu, hvað er það sem stendur uppúr?

 

"Já, það er margt sem maður upplifði þessi 5 ár og því af nógu að taka. Fyrir utan titlana, og þá sérstaklega kannski þann fyrsta og svo aftur núna þann fimmta þá held ég að maður verði að fara í klisjuna og tala um allt fólkið sem maður kynntist á þessum tíma og allt það sem maður lærði við það að starfa í kringum reynsluna í þessu félagi. Þetta var ómetanlegur skóli sem nýtist manni langt út fyrir körfuboltann."

 

 

Talað um endurnýjun hjá KR fyrir næsta tímabil, hvernig heldur þú að liðið eigi eftur að byggja upp aftur?

 

"Það verður einhver endurnýjun það er engin spurning en það á margt eftir að koma í ljós ennþá og því ekki hægt að segja hversu mikil sú endurnýjun verður. Ef t.d. Geitin kemur sæmilegur undan landsliði og reglubundnum aðgerðum, Brynjar og Bjössi verða á sínum stað og Ermolinski heldur áfram að hjóla í vinnuna þá er góður kjarni ennþá til staðar. Svo eru virkilega efnilegir ungir menn sem hafa setið á hliðarlínunni og eru tilbúnir að taka næsta skref."

 

 

Er líklegt að þeir geri atlögu að þeim sjötta í röð?

 

"Ef Böddi vill #sixpeat þá er miði möguleiki!"

 

 

Uppgangur hjá Sindra, munum við sjá þig í einhverju hlutverki þar?

 

"Það er bullandi uppgangur á Höfn. Undirbúningur fyrir tímabilið er hafinn, verið er að ræða við þjálfara til að taka við liðinu en ég mun ekki sinna því sökum anna. Spurning hversu mikið og lengi ég næ að halda mig frá íþróttahúsinu. Veltur aðalega á því hvað konan er þolinmóð gagnvart því að hafa mig meira heima.

 

"Ég mun taka sæti í stjórn og sinna sumaræfingum og aðstoða nýjan þjálfara eitthvað en tíminn á eftir að leiða það betur í ljós hversu mikil aðkoma mín verður. Eitt er þó víst að hér ætla menn sér að byggja upp öflugt og metnaðarfullt starf. Skipt verður um gólf á húsinu í sumar og sett upp ný leik klukka. Mikið verður lagt í það að byggja upp góða umgjörð í kringum liðið og festa það í sessi í fyrstu deild. Eigum við ekki bara að segja að Dominos sé á 5 ára planinu!"