Í nótt kl. 12:30 mætast Cleveland Cavaliers og Boston Celtics í þriðja leik liðanna í úrslitum Austurstrandarinnar. Fyrir leikinn leiða Celtics með tveimur sigrum gegn engum, en þeir sigruðu tvo fyrstu leikina sem fóru fram í Boston. Leikurinn í kvöld og sá næsti á eftir verða leiknir í Quicken Loans höllinni í Cleveland og hafa Cavaliers því möguleikann á að jafna einvígið aftur á heimavelli.

 

Stjörnuleikmaður Cavaliers, LeBron James, virðist vera rétt stilltur fyrir þennan mikilvæga þriðja leik. Eins og sést í myndbandinu hér fyrir neðan raðaði hann 12 þristum í röð niður á æfingu með liðinu í gær. Nú er ekki víst að honum takist slíkt hið sama þegar í leikinn er komið, en þó þarf hann að vera drjúgur fyrir sína menn ef ekki á illa að fara í nótt.

 

Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og NBA League Pass kl. 12:30.