Körfuknattleiksdeild ÍR gekk nýverið frá samkomulagi við Sigvalda Eggertsson um að spila með félaginu á næstu leiktíð. Sigvaldi lék með Fjölni á nýafstaðinni leiktíð og var m.a. valinn besti ungi leikmaður 1. deildar á leiktíðinni. Þá hefur ÍR einnig gengið frá samningi við Borche Illievski um að þjálfa liðið áfram. Þetta staðfesti Guðmundur Óli Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR í samtali við Karfan.is fyrr í dag.

 

Sigvaldi Eggertsson átti frábært tímabil hjá Fjölni með 19,2 stig að meðaltali í leik og 6,2 fráköst. Hann skaut yfir 35% frá þriggja stiga línunni auk þess að stela 1,2 boltum í leik. Sigvaldi verður frábær viðbót við ungan og efnilegan kjarna ÍR-inga. Sigvaldi var einnig í úrvalsliði 1. deildar karla á síðustu leiktíð.

 

Borche Illievski þarf vart að kynna fyrir stuðningsmönnum ÍR en árangur liðsins undanfarin ár segir allt um mikilvægi hans fyrir liðið og félagið í heild. Mikilvægt fyrir liðið og þennan kjarna sem stendur vaktina í Breiðholti. Þegar Borche tók við liðinu var það með fasta viðveru í 9.-10. sæti deildarinnar en fór alla leið í undanúrslit á nýafstaðinni leiktíð þar sem liðið var slegið út af Tindastóli í 4 leikjum.