Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR hefur framlengt samning sinn við félagið um eitt ár og mun því leika með Breiðhyltingum á næstu leiktíð. Þetta staðfesti Guðmundur Óli Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR í samtali við Karfan.is. ÍR náði sínum besta árangri í langan tíma á síðustu leiktíð þegar liðið náði öðru sæti í deildarkeppninni og féll út í undanúrslitum úrslitakeppninnar. 

 

Matthías lauk leik með 16,7 stig; 5,1 fráköst og 5,6 stoðsendingar í leik í vetur og var fjórði stoðsendingahæstur leikmanna í deildinni. Frábær leikmaður og afar mikilvægur fyrir ÍR-inga.

 

"Líst bara hörkuvel á næsta ár," sagði Matthías við Karfan.is. "Við eigum ókláruð verkefni sem við erum að horfa til að ná að klára á næsta ári. Vonandi helst sami kjarni í liðinu sem og bæta lauslega við liðið sem við vorum með í fyrra. Markmiðið er þá það sama og í fyrra, halda okkur í topp fjórum yfir tímabilið og halda áfram á þessari vegferð okkar í úrslitakeppninni með því að bæta okkur um eitt skref hvert ár."

 

"Erum að sjálfsögðu mjög ánægðir með að halda Matta sem var einn af máttarstólpum liðsins á síðasta tímabili og átti mikinn þátt í velgengni liðsins," sagði Guðmundur Óli, formaður.