Martin Hermannsson hefur heldur betur slegið í gegn í frönsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Hann leikur með Chalon/Reims en hefur síðustu misseri verið orðaður við stærri lið og var hann til dæmis nálægt því að ganga til liðs við ítalskt lið fyrir rúmri viku en félagið neitaði að losa hann undan samning en liðið var í fallbaráttu.
Nú er ljóst að liðið fellur ekki úr efstu deild á Frakklandi eftir sigur á Bourg um helgina þar sem Martin var eins og oft áður maður leiksins. Martin var í ítarlegu viðtali við körfuboltasíðuna BeBasket í Frakklandi í dag. Þar segir að Martin hafi hlotið gríðarlega athygli þrátt fyrir að liðið sjálft hafi farið nokkuð undir radarinn, sem dæmi um það lék Chalon/Reims aðeins einn leik í beinni í sjónvarpi.
Í viðtalinu segir Martin að lærdómsstiginu sé lokið, hann ætli sér að komast í undanúrslit Euroleague á næstu fimm árum og nú sé tími til að fara í sterkari deild og í gott lið. Hann segir drauminn vera að spila á Spáni en útilokar ekki að vera áfram í Frakklandi og segir lið þar nú þegar haft samband.
Í viðtalinu kemur einnig fram að til hafi staðið síðasta sumar að hann og Haukur Helgi Pálsson yrðu liðsfélagar hjá Chalon/Reims en það hafi ekki gengið eftir en Haukur spilar með Cholet í frönsku deildinni. Martin segir að uppáhaldsleikmenn sínir í NBA deildinni hafi verið Tony Parker og Manu Ginobili en sá fyrrnefndi er hlutaeigandi í einu sterkasta liðið Frakklands, ASVEL. Aðspurður um hvort Martin myndi ganga til liðs við liðið ef Tony Parker myndi hringja svaraði Martin hlægjandi: "Ég myndi gera allt fyrir Tony Parker".
Í lok viðtalsins er þjálfari liðsins Cédric Heitz spurður álits á leikmanninum en Heitz þjálfaði Martin einnig hjá Charleville á síðasta ári. Þar hrósar hann Martin í hástert og segist ánægður með framfarir hans. Þá kemur fram að Chalon/Reims muni bjoða Martin stærsta samning sem leikmaður hefur fengið í sögu þess í sumar. Liðið hafi ekki vanið sig á að borga einum leikmanni mikið meira en öðrum en í tilviki Martins verði það gert. Það er því nokkuð ljóst að Martin er í miklum metum hjá franska félaginu sem virðist vera tilbúið að gera allt til að halda honum.
Margt annað kom fram í viðtalinu og má finna það í heild sinni hér.