KR er Íslandsmeistari í 10. flokki karla eftir magnaðan sigur á Vestra/Skallagrím. Lokatölur 75-74 KR í vil þar sem Óli Gunnar Gestsson var valinn besti maður leiksins með 23 stig en hann átti líka jöfnunarþristinn sem kom KR í framlenginguna.

Gangur leiksins

KR-ingar mættu sprækari til leiks og leiddu 21-13 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Óli Gunnar Gestsson fór vel af stað með 10 stig eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta tók Hugi Hallgrímsson við sér fyrir Vestra/Skallagrím eftir að hafa verið rólegur fyrsta leikhlutann. Kollegi hans Marinó Þór Pálmason jafnaði svo metin 27-27 og liðin stukku svo inn í hálfleik í stöðunni 33-33. Sveiflukenndur fyrri hálfleikur sem var virkilega flottur hjá báðum liðum og gaf góð fyrirheit fyrir síðari hálfleikinn.

Áfram voru leikar jafnir í þriðja leikhluta, Óli Gunnar og Gunnar Steinþórs voru báðir komnir í villuvandræði hjá KR og þurftu því að passa sig verulega. Í lok þriðja skildu leiðir smávægilega þegar Ísar Jónasson skellti niður þrist fyrir KR í horninu og skömmu síðar skoruðu KR-ingar af sóknarfrákasti og fóru því inn í fjórða með 49-44 forystu. Liðsmenn Vestra/Skallagríms komu inn í fjórða með loftþéttan varnarleik og á hinum endanum fór Hilmir Hallgrímsson mikinn, skoraði erfiðu körfunar og innan stundar var staðan 50-59 Vestra/Skallagrím í vil. Í jafn jöfnum leik framan af virtist þessi sprettur Vestra/Skallagríms reynast KR einfaldlega of mikill en röndóttir gáfust ekki upp! Svo fór að KR barði sér leið aftur upp að hlið Skallagríms/Vestra og þeim barningi lauk með þrist frá Óla Gunnari sem jafnaði metin 63-63 þegar þrjár sekúndur lifðu leiks og því var framlengt!

Gunnar Steinþórsson var beittur í framlengingunni, skoraði 5 stig í röð fyrir KR en Skallagrímur/Vestri komst yfir á ný með svaðalegum þrist frá Huga Hallgríms 73-74. Gunnar Steinþórs var aftur á ferðinni þegar 14 sekúndur voru eftir og kom KR í 75-74. Skallagrímur/Vestri átti lokasóknina en þeim tókst ekki að skora og fögnuður KR-inga innilegur í leikslok.

Tölfræðin lýgur ekki

Á lokasprettinum er ekki loku fyrir það skotið að sennilega hefði verið betra fyrir Skallagrím/Vestra að sækja meira að körfunni í stað þess að skjóta þristum, voru 5-28 í þristum í dag og í fjórða leikhluta sem og framlengingunni voru flestir þeirra víðsfjarri að fara niður. Framlagið hjá báðum liðum lá meira en 90% í byrjunarliðunum og Hilmir Hallgrímsson gerði atlögu að nafnbótinni besti maður leiksins með 30 stig fyrir Skallagrím/Vestra og þá voru þeir Marinó og Hugi einnig drjúgir. Hjá KR var Óli Gunnar stigahæstur með 23 stig en Þorvaldur Orri kom víða við í tölfræðinni með 16 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar.

Hetjan

Óli Gunnar Gestsson er ótvíræð hetja leiksins en KR liðið í heild fær líka klapp á bakið fyrir að gefast aldrei upp, lenda 11 stigum undir og vinna sig til baka inn í leikinn, galdra fram framlengingu og landa svo sigri. Magnaður karakter en þristurinn hans Óla Gunnars stendur upp úr.

Tölfræði leiksins

Viðtal við Óla Gunnar, KR: