Arnar Guðjónsson þjálfari U20 landsliðsins baðst lausnar frá verkefni sínu með landsliðið í sumar eftir að ljóst var að hann myndi taka við liði Stjörnunnar í Dominos deild karla. Frá þessu er greint á heimasíðu KKÍ í dag og er eftirmaður Arnars fundinn. 

KKÍ varð við ósk Arnars samkvæmt frétt félagsins og þakkar honum frábær störf fyrir íslenska landsliðið á undanförnum árum og óskar KKÍ honum alls hins besta í sínum störfum í vetur. 
 

Áður hafði verið búið að ganga frá því að Baldur Þór Ragnarsson yrði áfram með liðinu í þjálfarateyminu líkt og undanfarin ár sem aðstoðar- og styrktarþjálfari sem og Israel Martin, þjálfari Tindastóls, sem hafði bæst við í þjálfarateymi liðsins.
 
Nú hefur verið gengið frá því að Israel Martin taki við af Arnari og verði aðalþjálfari liðsins í sumar og Baldur Þór verði honum til aðstoðar og verði styrktarþjálfari liðsins. 

Framundan hjá liðinu eru æfingar í lok maí og í júní og svo Evrópukeppni FIBA í A-deild U20 landsliða en mótið ferm fram í Chemnitz í Þýskalandi dagana 14.-22. júlí. Þetta er í annað sinn sem Ísland á lið í A-deild U20 liða en á síðasta ári hafnaði Ísland í 8. sæti deildarinnar af 16 liðum.