Breiðablik hefur náð samkomulagi við Huldu Ósk Bergsteinsdóttur um að leika með liðinu á komandi leiktíð. Þetta var tilkynnt á Twitter síðu Blika í dag.

 

Hulda kemur frá Njarðvík þar sem hún er uppalin og hefur leikið með meistaraflokk liðsins síðustu ár. Hún var með 5,1 stig og 4,1 frákast að meðaltali í leik á síðustu leiktíð er Njarðvík féll úr Dominos deildinni. Hulda er 19 ára gömul og hefur leikið með yngri landsliðum Íslands en hún er einmitt hluti af U20 landsliðinu sem leikur á evrópumótinu í sumar. 

 

Hulda er ekki fyrsti leikmaðurinn sem kemur til Breiðabliks frá Njarðvík. Fyrir stuttu sömdu þær Björk Gunnarsdóttir og Erna Freydís Traustadóttir við liðið en þær koma frá Njarðvík. Einnig samdi Bryndís Hanna Hreinsdóttir við liðið á dögunum en Margrét Sturlaugsdóttir er tekin við þjálfun liðsins.