Úrslitakeppnin er hafin í grísku úrvalsdeildinni þar sem Hörður Axel Vilhjálmsson er í eldlínunni með liði sínu Kymis. Liðið endaði í sjöunda sæti deildarinnar og mætir því Olympiakos í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. 

 

Fyrsti leikurinn fór fram í gærkvöldi þar sem Hörður lék nærri 16 mínútur í naumu tapi. Hörður var með þrjú stig og tvö fráköst en hann var meðalannars að dekka stórstjörnu Olympiakos Vassilis Spanoulis. Leikurinn réðst á lokasprettinum en lokastaðan var 78-75. 

 

Olympiakos er því komið í 1-0 forystu í einvígi liðanna í átta liða úrslitum en sigra þarf tvo leiki til að komast í næstu umferð. Kymis og Hörður eru því með bakið uppvið vegg og þurfa sigur í næsta leik gegn stjörnunum í Olympiakos.

 

Hörður Axel hefur átt fína leiki síðan hann kom til Grikklands strax eftir að hann lauk leik með Keflavík í Dominos deildinni. Hann hefur leikið yfir 15 mínútur í öllum leikjum og byrjað marga leiki fyrir Kymis.