Hildur Björg Kjartansdóttir lauk leik í spænsku B-deildinni fyrir nokkrum vikum en hún lék með Leganés. Lið Leganés endaði í fimmta sæti B-riðils deildarinnar og missti liðið því af úrslitakeppninni. 

 

Hildur Björg var með 11,5 stig og 6,5 fráköst í 23 leikjum með liðinu á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennskunni. Hún lék áður með Grand Valley háskólanum í bandaríkjunum en er uppalin hjá Snæfell. 

 

Karfan.is heyrði í Hildi á dögunum og spurði hana útí nýliðið tímabil og hvernig frammistaða hennar var. 

 

Hvernig gekk nýliðið tímabil hjá Leganés?

Svona í heildina þá gekk tímabilið fínt hjá okkur. Við byrjuðum rosalega vel og komum okkur í góða stöðu í fyrri umferðinni. Lok seinni umferðarinnar var svo ekki eins góð og fannst mér við slaka aðeins á. Vorum ekki að klára þessa jöfnu leiki eins og við vorum að gera í fyrri hlutanum.

 

Hvernig metur þú þína frammistöðu á þessu tímabili?

Ég vissi ekki nákvæmlega við hverju ég átti að búast þegar ég fór út, hvernig deildin væri, leikmennirnir og þjálfararnir, en sá svo að ég átti möguleika á að gera góða hluti í fyrir liðið og í deildinni. Það er auðvitað alltaf margt sem að maður vill bæta, en er persónulega er ég nokkuð ánægð með mína frammistöðu í vetur. Aðlagaðist fljótt að hraðari leik og leikmönnum með góðan leikskilning.

 

 

Eitthvað sem kom þér á óvart við atvinnumennskuna? Fannst þér mikill munur á háskólaboltanum og Evrópu?

Það er kannski ekki mikið sem kom að óvart í atvinnumennskunni nema kannski það hversu mikla ábyrgð inni á vellinum ég fékk. Í háskólaboltanum ertu alltaf í svolítið vernduðu umhverfi og þarft ekki að taka eins margar stórar ákvarðanir að mínu mati, þjálfararnir hafa miklu meira að segja um allt. Ég held ég hafi fundið mestan mun á háskólaboltanum og Evrópu boltanum að vera ekki í skóla og hafa þannig meiri tíma í betri hvíld og svefn á milli leikja og æfinga. Ég var kannski að æfa alveg jafn mikið tímalega séð, en var að æfa betur. Einnig ræður maður sér meira sjálfur eftir háskólaboltann þar sem að fylgja þarf ströngum reglum.

 

Voru vonbrigði hvernig tímabilið endaði?

Það var markmið hjá okkur fyrir tímabilið að vera í úrslitakeppninni þannig að komast ekki þangað voru mikil vonbrigði. Við töpuðum 4 leikjum í röð undir lok deildarinnar sem að reyndist okkur mjög dýrt og kostaði okkur sætið. Ég hefði viljað sjá margt fara öðruvísi þar.

 

Hvernig lýtur framhaldið út? Áframhaldandi atvinnumennska eða eitthvað spennandi í boði?

Planið er að fara aftur út og halda áfram í atvinnumennsku. Eins og er þá er ekki búin að semja fyrir næsta tímabil, en það ætti að skýrast fljótlega. Ég fékk tilboð í sumardeild núna í sumar en taldi það vera betra fyrir mig að koma heim og undirbúa mig fyrir næsta tímabil í Evrópu.