Þór Þorlákshöfn er nú í óða önn að undirbúa lið sitt fyrir baráttuna í Dominos deild karla á næsta tímabili. Á dögunum skrifaði Ragnar Örn Bragason undir samning við liðið og er aftur kominn til Þorlákshafnar. 

 

Í dag var svo tilkynnt að Hallgrímur Brynjólfsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins. Hallgrímur er uppalin á Þorlákshöfn en hann hefur þjálfað hjá félaginu áður og er því á heimleið. Samhliða því mun Hallgrímur þjálfa unglingaflokk félagsins. Hann hefur einnig þjálfað hjá Hamri, KR og nú síðast kvennalið Njarðvíkur sem hann stýrði alla leið í bikarúrslit á nýliðnu tímabili. 

 

Hann mun þá aðstoða Baldur Þór Ragnarsson sem tók við þjálfun liðsins af Einari Árna í sumar en Baldur hefur verið aðstoðarþjálfari liðsins síðustu ár. Það eru því nokkrar breytingar yfirvofandi á Þorlákshöfn en ljóst er að heimamenn munu stýra skútunni. 

 

Hallgrímur var gestur í podcasti Karfan.is fyrir stuttu þar sem hann gerði upp ferilinn í þjálfun. Þáttinn má finna hér.