Undanúrslit Íslandsmóts 9. flokks stúlkna fóru fram í morgun í DHL-höllinni þar sem úrslit yngri flokka fara fram um helgina. Í fyrri leiknum mætti Grindavík Keflavík en óhætt er að segja að leikurinn hafi ekki verið mjög jafn. 

 

Grindavík náði 21-4 forystu strax eftir fyrsta leikhluta og gáfu það aldrei eftir. Að lokum vann liðið 46-21 sigur og leikur til úrslita. Viktoría Rós Horne var frábær með 16 stig í leiknum fyrir Grindavík. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn úr leiknum (Davíð Eldur)

 

Seinni leikur dagsins var æsispennandi. Þar mættust Njarðvík og Tindastóll/Þór Ak. Njarðvík byrjaði mun betur en norðanstúlkur komust hægt og rólega aftur inní leikinn. Þegar tvær mínútur voru eftir var staðan 36-43 fyrir Tindastól/Þór Ak þegar Njarðvík komst á skrið og minnkaði muninn í eitt stig 42-43.

 

Við tók æsispennandi lokamínúta þar sem hvorugu liðinu tókst að setja stig á töfluna, það var því lokastaðan og Tindastóll/Þór Ak á leið í úrslit. Marín Lind Ágústsdóttir og Eva Rún Dagsdóttir voru með sitthvor 15 stigin fyrir Tindastól/Þór Ak í leiknum.

 

Það verða því Grindavík og Tindastóll/Þór Ak sem mætast í úrslitum 9. flokks stúlkna á morgun, sunnudag kl 9 í DHL-höllinni. 

 

Tölfræði leiksins