Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur tilkynnt að liðið hafi náð samkomulagi við Danero Thomas um að leika með liðinu á næsta tímabili. Þetta kemur fram hjá Feyki.is í kvöld. 

 

Danero var með 16,1 stig í 30 leikjum og 16,4 framlagsstig á síðustu leiktíð en hann lék með ÍR. Hann kom til Breiðhyltinga um áramót 2017 en var þar áður hjá Þór Ak. Hann er með íslenska ríkisfang og þykir gríðarlega góður leikmaður. Hann reyndist drjúgur fyrir ÍR á síðasta tímabili en hann setti meðal annars sigurkörfuna í einvíginu gegn Stjörnunni í átta liða úrslitum. 

 

Samningur Danero er til eins árs en hann féll einmitt úr leik í Síkinu er Tindastóll sló út ÍR í undanúrslitum. Ljóst er að um gríðarlega sterkan liðsstyrk er að ræða fyrir Tindastól sem ætlar sér greinilega að bæta í en liðið féll úr leik í úrslitum Íslandsmótsins gegn KR.