Á dögunum tilkynnti Selfoss Karfa að gengið hefði verið frá ráðningu á Chris Caird fyrir komandi tímabil í 1. deild karla. Chris byrjaði síðasta tímabil sem leikmaður Tindastóls en þurfti að leggja skóna á hilluna um miðbygg tímabils vegna meiðsla aðeins 28 ára gamall. Var hann þá tekinn inn í þjálfarateymi liðsins, sem sigraði Maltbikarkeppnina og fór alla leið í úrslit Íslandsmótsins, þar sem þeir töpuðu fyrir KR.

 

Caird ekki ókunnugur aðstæðum á Selfossi, en samkvæmt skráningu KKÍ er FSu (sem nú er Selfoss Karfa) hans uppeldisfélag. Þangað kom hann 18 ára gamall árið 2008 og lék þangað til hann fór út til Bandaríkjanna í háskóla þar sem hann lék með 1. deildar háskólanum Drake University. Eftir að hann kom aftur til Íslands 2015 lék hann fyrst með FSu, en síðustu tvö tímabil með Tindastól.

 

Karfan heyrði í Chris og spurði hann út í ákvörðunina að þurfa að hætta, tímabilið með Tindastól og áskorunina með Selfoss Körfu í 1. deildinni.

 

 

 

 

Nú þurftir þú að hætta að spila í fyrra, var það erfið ákvörðun?

"Einhver erfiðasta ákvörðun lífs míns. Þetta hefur verið allt sem ég þekki svo lengi. Í huganum er ég ekki búinn samt, hver veit hvar hausinn verður varðandi það að taka skóna fram á nýjan leik eftir nokkur ár. Á þessari stundu er ég eingöngu að einbeita mér að þjálfun."

 

 

Hvenær ákvaðst þú að snúa þér að þjálfun?

"Ég var í raun nauðbeygður eftir þessi síðustu meiðsl mín, en þökk sé Coach Martin og stjórninni hjá Tindastól, þá hafa þetta verið nokkuð auðveld umskipti."

 

 

 

 

Síðasta tímabil bæði gott og slæmt með Tindastól. Þið vinnið fyrsta stóra titilinn í Maltbikarnum, en tapið svo í lokaúrslitum fyrir KR. Nú komnir nokkrir dagar síðan þessu lauk, hvaða einkunn myndir þú gefa þessu tímabili?

"Það er erfitt fyrir mig að segja. Þetta var frábært tímabil og ég er stoltur af liðsfélögum mínum fyrir þá baráttu sem þeir sýndu í vetur. Við unnum marga stóra sigra, bikarinn og svo komumst við í úrslitaeinvígið. Ætli þetta sé ekki nía, sem hefði verið tía ef við hefðum unnið báða titlana. Það svar er svona frá mér sem þjálfara allavegna. Fyrir mig að hafa þurft að hætta sem leikmaður er bara núll, að draumur minn hafi verið tekinn frá mér. Ætli tímabilið í heild hafi ekki verið súrsætt."

 

 

 

Nú ert þú nýtekinn við þínu fyrsta aðalþjálfarastarfi hjá Selfoss Körfu, hver eru markmiðin fyrir næsta tímabil?

"Já, ég er mjög spenntur yfir því að fá tækifæri sem aðalþjálfari og að það sé hjá mínu gamla félagi er alveg einstakt. Hvað varðar markmið, þá verðum við að vera raunsæ, það fer allt eftir hvaða leikmenn við verðum með og það er alltof snemmt að segja til um það núna. Á endanum er markmiðið að komast aftur upp í Dominos deildina, en það er mjög raunsætt markmið ef við erum með réttu leikmennina."

 

 

Hvaða gerð af körfubolta megum við búast við frá Coach Caird?

"Ég hef spilað fyrir þjálfara sem vilja hægja á leiknum, hef einnig spilað fyrir þjálfara sem vilja keyra hraðann upp og skjóta mikið. Ég held að ég sé nær því seinna, en þó verður að vera einhverskonar skipulag á því. Líkt og áður, ákvarðast það einnig mikið til af þeim leikmönnum sem við verðum með."

 

Munum við sjá ykkur bæta mikið við hópinn, er eitthvað sérstakt sem þér finnst ykkur vanta í dag?

"Án alls vafa. Kjarni liðsins verður áfram, það var það fyrsta sem ég vildi ganga úr skugga um, en fyrir utan þá, þá er svosem aldrei hægt að vera með of mikið af lengd og íþróttamennsku. Bætir við nokkrum góðum skotmönnum og þá ertu kominn með körfuboltalið."