Úrslitaeinvígið í finnsku úrvalsdeildinni er hafið en segja má að þar mætist Íslandsvinir og tveir af betri leikmönnum Dominos deildar karla síðustu ár. Þetta árið mætast Salon Vilpas og Kauhajoki Karhu. 

 

Í liði Salon Vilpas spilar Tobin Carberry sem leikið hefur á Íslandi síðustu ár. Fyrst tvö ár með Hetti og svo með Þór Þorlákshöfn á síðasta tímabili þar sem hann fór með liðinu alla leið í bikarúrslit. Carberry er með 14,2 stig og 5,2 fráköst að meðaltali á 28 mínútum á tímabilinu. 

 

Borgnesingurinn Flenard Whitfield spilar með Karhu liðinu en hann lék með Skallagrím á síðasta tímabili. Flenard féll með Skallagrím en átti frábært tímabil í Borgarnesi. Hann er með 11,1 stig og 5,2 fráköst að meðaltali á 19 mínútum í leik. 

 

Uppfært: Kelvin Lewis sem lék með Hetti seinni hluta þessa tímabils er einnig með Kauhajoki Karhu þar sem hann er með 11,6 stig að meðaltali í leik. 

Deildarmeistarar Salon Vilpas unnu fyrsta leik liðanna 86-75 í einvíginu og leiða því einvígið 1-0. Vinna þarf fjóra leiki til að tryggja Finnska meistaratitilinn og því nóg eftir.